„Staðan í geðheilbrigðismálum landsmanna er sú að 30% þeirra sem leita til heilsugæslunnar gera það vegna geðrænna áskorana,“ segir Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Hann segir engan vafa leika á að umfangið sé mikið og í dag séu geðrænar áskoranir stóra viðfangsefnið í hinum stóra heimi.
„Þegar við skoðum samfélagsgerðina hjá okkur sjáum við að það eru rúmlega 25 þúsund öryrkjar á Íslandi og af þeim eru 40% á örorku vegna geðrænna áskorana. Það þýðir að rúmlega tíu þúsund manns eru á langtímaörorku eða endurhæfingarörorku vegna geðrænna áskorana,“ segir hann. Setja þurfi geðheilbrigði í forgang, ekki síst með tilliti til þess að sífellt yngra fólk upplifi erfiða andlega líðan í þjóðfélaginu.
Þegar tölfræðin er skoðuð á Íslandi vekur það athygli hversu andlegri heilsu virðist hafa hrakað mikið hjá ungu fólki á aldrinum 6-17 ára. Þegar þróunin er skoðuð frá árinu 2013 til 2022 má sjá mikla aukningu í notkun þunglyndislyfja þessa hóps, eða um 106% fyrir meðaltal beggja kynja. ADHD-lyfjanotkun hefur aukist um 72% á sama tímabili og notkun svefn- og róandi lyfja hefur rokið upp, aukist um 268% hjá sama hópi á þessu tímabili.
Þetta eru sláandi tölur og vilja margir finna hér sökudólga og kanna hvort læknum sé hugsanlega laus höndin þegar kemur að því að skrifa upp á lyf. Vissulega þarf að skoða það. En það má ekki gleyma grundvallarvandamálinu, sem er að líðan ungs fólks á þessum aldri hefur versnað mikið á þessu tímabili. Finna þarf hvað veldur og hvernig hægt er að finna lausnir.
„En við erum líka betri í því að segja hvernig okkur líður og leita okkur aðstoðar, sem er gott.“ Hann bætir við að þegar komið sé í óefni sé mikilvægt að boðið sé upp á góða þjónustu. Þegar bornar séu saman geðdeildir í Danmörku og hérlendis sjáist berlega að forgangur þessa málaflokks sé ekki góður.
„Við fórum í alla grunn- og framhaldsskóla á landinu 2021 og 2022 með fræðslu fyrir 8.-10. bekk og fyrsta bekk menntaskóla þar sem við töluðum um geðrækt. Við bjuggum til orðabók geðheilsu og þar voru orð eins og samkennd, jákvæðni og umburðarlyndi, en ekki orð eins og þunglyndi og sjálfsvíg,“ segir Grímur. „Núna viljum við fara fyrir ofan fossinn og einbeita okkur að fyrirbyggjandi starfi og grípa einstaklingana áður en þeir falla ofan í fossinn.“
Fréttin birtist fyrst í Morgunblaðinu á fimmtudaginn.