Forsetinn á ekki að vera veislustjóri

Margur vill búa á Bessastöðum.
Margur vill búa á Bessastöðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur segir suma, jafnvel marga, hafa viðhorf til forsetaembættisins, sem einkennist af alvöruleysi. „Ástæðan er hugsanlega sú að embættið er upplifað ábyrgðar- og valdalítið og sumir virðast hreinlega líta á forseta Íslands sem einhvern veislu- eða skemmtanastjóra. Sem er pínlegt," segir Ragnar.

Tímabært er, að hans dómi, að koma betri skipan á þessi mál, því forsetinn sé æðsti gæslumaður lýðræðis og réttarfars, hafandi vald til að vísa lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Tvennt kemur honum í hug sem bætt gæti úr þessu alvöruleysi:

Annars vegar. „Frambjóðandi sem býður sig fram oftar en einu sinni á að þurfa fleiri meðmælendur en sá sem býður sig fram í fyrsta sinn. Í þriðja sinn enn fleiri. Þannig losnum við við alvörulausa frambjóðendur.“

Hins vegar. „Meðmælandi frambjóðanda þarf að kjósa þann sem hann mælir með. Þetta þýðir að meðmæli ber að skrá sem atkvæði greitt frambjóðandanum og þar með verður meðmælandinn ekki á kjörskrá á kjördag, hann hefur þegar ráðstafað atkvæði sínu. Þannig losnum við við alvörulausa meðmælendur.“

Ragnar Önundarson.
Ragnar Önundarson.


Nú er atkvæðagreiðslan vitaskuld leynileg en Ragnar hefur fulla trú á því að það mál verði hægt að leysa, í tæknisamfélagi samtímans. Hann nefnir rafræn skilríki í því sambandi eða að mönnum verði hreinlega gert að mæta til sýslumanns, þar sem þeir mæli með ákveðnum frambjóðanda og greiði honum um leið atkvæði sitt, í fullum trúnaði. „Þetta er auðvitað dálítil fyrirhöfn en er ekki eðlilegt að menn leggi eitthvað á sig til að mæla með og kjósa þann frambjóðanda sem þeim líst best á?“

Samfélagsmiðlar hafa breytt miklu

Stefanía Óskarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir samfélagsmiðla hafi breytt miklu þegar kemur að umræðunni um forsetaembættið og forsetakjör.

Stefanía Óskarsdóttir.
Stefanía Óskarsdóttir. Mbl.is/Styrmir Kári


„Eftir tilkomu þeirra eru allir mögulega komnir með rödd. Fólk getur með auðveldari hætti en áður blandað sér í þjóðmálaumræðuna og boðað til funda og mótmæla án þess að kosta miklu til. Nú þarf ekki lengur að reiða sig á hefðbundna fjölmiðla eða samtök í sama mæli og áður til að komast á mælendaskrá. En því fylgir að þjóðfélagsumræðan er dreifðari en áður og nýjar fylkingar geta auðveldlega komið fram. Þess vegna geta hvorki fjölmiðlar né stjórnmálaforystan stýrt umræðunni eins og áður var.“

Skerpa þarf á hlutverkinu

Birgir Guðmundsson, prófessor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, segir að skerpa þurfi á einhverju í sambandi við hlutverk forseta Íslands. „Það á ekki hver sem er að geta mátað sig við embættið. Sama og er að eiga sér stað núna gerðist fyrir átta árum þegar Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti að hann ætlaði að láta af embætti, fjöldi manns fór að viðra framboð og jafnvel bjóða sig formlega fram. Sú umræða varð næstum til þess að Ólafi Ragnari snerist hugur.“

Birgir Guðmundsson.
Birgir Guðmundsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson


Birgir bendir á, að núverandi forseti hafi sjálfur hvatt til þess að skerpt verði á hlutverki forseta í stjórnarskránni og Alþingi megi gjarnan taka þau tilmæli til sín. „Hvert er hlutverk forseta Íslands? Er nóg að hann kunni að halda kokkteilpartí og geti spjallað við danska kónginn? Þarf dýptin ekki að vera meiri? Á móti getur maður tekið Ragnar Reykás á þetta og sagt að jákvætt sé að almenningur í landinu sýni embættinu svona mikinn áhuga,“ segir Birgir. 

Nánar er fjallað um umræðuna um forsetaembættið og forsetakjör í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert