Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg

Skjálftavirkni síðustu 6 tímana. Skjálftinn sem mældist 2,9 var 1,3 …
Skjálftavirkni síðustu 6 tímana. Skjálftinn sem mældist 2,9 var 1,3 km NA af Geirfuglaskeri á Reykjaneshrygg. Kort/Map.is

Jarðskjálfti af stærðinni 2,9 mældist við Reykjaneshrygg á sjöunda tímanum í kvöld. Skjálftinn er sá stærsti í jarðskjálftahrinu sem er hafin á svæðinu en ekki er víst hvort hrinan tengist kvikuganginum á Reykjanesskaga.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veður­stofu Íslands, segir við mbl.is að skjálftarnir í hrinunni hafi margir verið „meðalstórir“. Stærsti skjálftinn mældist á 9,6 kílómetra dýpi, kl. 18.35 í kvöld.

„Ég held að það sé ekki hægt að draga neina sérstaka ályktun að þetta tengist kvikuinnskotinu í Svartsengi með neinum beinum hætti,“ segir Salóme.

Fleiri skjálftar mælst við ganginn í dag en í gær 

Um 6,5 milljón rúmmetrar af kviku hafa flætt inn í kvikusylluna við Svartsengi að mati veðurstofunnar. Salóme segir að 58 skjálftar hafi mælst norður af Grindavík frá miðnætti.

„En það er gott að hafa í huga að maður á alltaf að vara sig á þessum dagasamanburði. Af því að í gær var éljaveður sem kann að hafa áhrif á næmnina,“ bætir hún við. „Það getur vel verið að það hafi verið meiri virkni í dag en í gær burtséð frá þessu, en við sjáum engin bein önnur merki um að staðan sé að breytast.“

Veðurstofan telur líklegt að kvikumagnið í ganginum nái svipuðu rúmmáli og fyrir eldgosið 14. janúar á næstu tveimur vikum og jafnvel dögum. Líkurnar á kvikuhlaupi og eldgosi hafa því aukist.

„Við erum svona að undirbúa okkur undir það að það gæti verið stutt í gos. Gæti verið á næstu dögum eða örfáum vikum,“ segir Salóme og bætir við að lokum að fyrirvarinn gæri líklega orðið styttri en áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert