„Þetta var mjög erfiður dagur fyrir Grindvíkinga,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, í samtali við mbl.is en rúmlega þúsund Grindvíkingar vitjuðu eigna sinna í dag. Búist er við álíka fjölda á morgun, mánudag.
„Þetta gekk mjög vel, þrátt fyrir flækjustig,“ segir hún en eftir uppfært hættumatskort Veðurstofu Íslands fyrir helgi var skipulagningu við verðmætabjörgunina breytt. Íbúar fengu um sex klukkustundir í bænum og var hleypt inn í tveimur hólfum.
Um 400 bifreiðar voru í bænum í báðum tímahólfum og segir Hjördís að þar á meðal hafi verið talsvert um flutningabíla.
Var fólk almennt ánægð með nýja fyrirkomulagið?
„Já, en þó á móti kemur skilur maður þá sem finnst þetta flókið og mikið stress, flækjustig og kvíðavaldandi,“ segir Hjördís og bætir við að mikil skipulagning og vinna hafi falist í því að fá alla íbúa inn í bæinn á tveimur dögum.
„En það skilaði sér allavega þannig í dag að þá er helmingurinn búinn að fara inn í bæinn.“
Þau sem töldu sig ekki geta bjargað geymslurými sjálf gátu komið búslóð sinni í geymslur sem staðsettar eru á Flugvöllum í Reykjanesbæ.
Hjördís segir að einhverjir hafi nýtt sér það úrræði en það hafi einungis verið í boði fyrir þá sem virkilega þurftu á því að halda. Verið er að vinna í að semja við aðra geymsluaðila.
Hjördís segir að viðbragðsaðilar á staðnum hafi fundið það mjög sterkt hversu erfiður dagur þetta hafi verið fyrir íbúa Grindavíkur.
„Þetta var þungur dagur.“
Á morgun tekur síðan við annar eins dagur og vonast Hjördís til að hann gangi eins vel.
„Við áttum okkur á því að við séum smá í kapphlaupi við náttúruna, án þess að vita hvað hún gerir,“ segir hún en líklegt þykir að gosið gæti á næstu tveimur vikum miðað við magn kviku í kvikuhólfinu við Svartsengi.
Hjördís segir að eftir morgundaginn sé áformað að hleypa fólki áfram heim til sín.