Ari Jón Arason, íbúi við Nesveg í Vesturbæ, segir að Reykjavíkurborg hafi skyndilega tekið upp á því að sekta íbúa við götuna þegar þeir leggja við innkeyrslu sína.
Hann hefur búið við Nesveg í átta ár og segir íbúa ekki hafa þurft að hafa áhyggjur af sektum fyrr en fyrir um tveimur mánuðum.
Þessi nýja ráðstöfun borgarinnar setji gangandi vegfarendur í aukna hættu og furðar Ari sig á skyndilegum sinnaskiptum Bílastæðasjóðs.
Á Nesvegi er pláss fyrir bíla til að leggja sitt hvorum megin götunnar í akstursstefnu. Eins hafa þeir íbúar sem eiga innkeyrslu sunnan megin við götuna lagt bíl sínum þversum nærri götunni í stað þess að keyra alla leið inn í innkeyrslu, yfir gangstétt sem þar er.
Bíllinn er því ekki úti á götu og ekki inni á gangstétt.
„Við götuna er grasbali og hann er það plássríkur að þú þarft ekki að keyra alveg inn í þína innkeyrslu, yfir gangstétt,“ segir Ari.
Hann segir að íbúar hafi haft þennan háttinn á árum saman án athugasemda. Íbúar velji þetta til þess að gæta að öryggi gangandi vegfarenda sem eiga leið um gangstéttina.
Þannig skapist meiri hætta ef íbúar þurfa að bakka úr innkeyrslum sínum yfir gangstétt.
„Það er svo hættulegt að bakka yfir gangstéttina. Þar er endalaust af krökkum á hlaupahjólum og við þurfum að bakka fyrir 90 gráða horn yfir gangstéttina og út á götu ef þú leggur meðfram húsinu. Mig langar ekki að keyra veg fyrir krakka á rafmangshlaupahjóli,“ segir Ari.
Samkvæmt sektinni er Ari sagður hafa lagt á gangstétt.
„Það er einfaldlega ekki rétt,“ segir hann og hyggst áfrýja sektinni.
Borgin hafi byrjað að sekta fólk á síðustu tveimur mánuðum en enginn fyrirvari hafi verið gefinn þannig að íbúar hefðu haft tök á því að bregðast við ábendingum borgarinnar.
„Ég hef búið þarna í átta ár og þetta hefur verið viðtekin venja að leggja þarna.“