Þrefaldur munur á kostnaði við húshitun

Allt að þrefaldur munur getur verið á kostnaði við húshitun …
Allt að þrefaldur munur getur verið á kostnaði við húshitun hér á landi. mbl.is/Árni Sæberg

Mikill munur getur verið á orkukostnaði heimila eftir byggðarlögum landsins og er munurinn á húshitunarkostnaði mun meiri en á raforkuverði. Lægsti mögulegi kostnaðurinn þar sem húshitunin er dýrust er um þrefalt hærri en þar sem hún er ódýrust.

Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu Byggðastofnunar um orkukostnað heimila í 91 byggðarlagi. Hún er byggð á útreikningum Orkustofnunar á kostnaði á ársgrundvelli við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni sem notuð er til viðmiðunar á nokkrum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli.

„Lægsti húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign er í Brautarholti á Skeiðum og á Seltjarnarnesi um 75 [þúsund kr.] og þar næst á Flúðum um 77 [þúsund kr.]. Á þessum stöðum er lægsti húshitunarkostnaður um þriðjungur af kostnaðinum þar sem hann er hæstur. Hæsti húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign er í Grímsey um 246 þ.kr., þar sem er olíukynding.

Þar fyrir utan er húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign hæstur á stöðum þar sem hitaveita er dýr eða notast er við kynta hitaveitu. Á Höfn í Hornafirði og í Nesjahverfi er nýleg hitaveita (RARIK) og húshitunarkostnaður viðmiðunareignar er 232 þ.kr. Á Grenivík er einnig hitaveita (Norðurorka) og þar er húshitunarkostnaður 231 þ.kr. Í Vestmannaeyjum er kynt hitaveita og þar er húshitunarkostnaður 225 þ.kr. fyrir viðmiðunareign.

Á stöðum sem þurfa að nota beina rafhitun er lægsti húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareignina nú um 197 þ.kr., en með varmadælu er hér áætlað að hann geti verið um 99 þ.kr.,“ segir í skýrslunni.

Sé eingöngu litið á raforkukostnað heimila leiðir samanburðurinn í ljós að lægsta mögulega verð sem neytendum stendur til boða að meðtöldum flutnings- og dreifingarkostnaði fæst hjá Veitum á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi, um 87 þúsund kr. Hæsta gjald fyrir raforkuna í skilgreindu þéttbýli er um 107 þúsund kr. hjá Orkubúi Vestfjarða. Raforkuverð er hærra í dreifbýli, hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða, eða um 116-120 þús. kr.

Bent er á í umfjöllun Byggðastofnunar um niðurstöðurnar að lægsta mögulega raforkuverð fyrir viðmiðunareignina var töluvert hærra í dreifbýli en í þéttbýli fram til ársins 2021 en þá fór bilið þar á milli að minnka mikið vegna aukins dreifbýlisframlags til jöfnunar dreifikostnaðar raforku í dreifbýli. Í fyrra hækkaði raforkuverð í þéttbýli um 0,4-3,9%, nema hjá Veitum en þar lækkaði raforkuverð um 1,4%. Í dreifbýli lækkaði raforkuverð heimilisins á seinasta ári um 7,0% hjá Orkubúi Vestfjarða og 3,1% hjá RARIK.

Kostnaðurinn hæstur í Grímsey en lægstur á Seltjarnarnesi

Heildarorkukostnaður, fyrir raforku og vegna húshitunar, er líkt og verið hefur á undanförnum árum hæstur í Grímsey eða 374 þúsund kr. en þar er rafmagn framleitt með dísilrafstöð og húsin kynt með olíu. Olían hefur hækkað mikið, árið 2022 hækkaði verð á olíu til húshitunar um 57% frá fyrra ári og 2023 varð aftur 21% hækkun, en bent er á í skýrslunni að vegna niðurgreiðslna höfðu hækkanirnar ekki áhrif á húshitunarkostnað í Grímsey.

Næst á eftir Grímsey er heildarkostnaður vegna raforku og húshitunar hæstur í Nesjahverfi í Hornafirði, 352 þús. kr., og á Höfn 333 þús. kr., Grenivík 332 þús. kr. og í Vestmannaeyjum 325 þús. kr. Líkt og á undanförnum árum er lægsta heildarorkukostnaðinn á landinu að finna á Seltjarnarnesi, 163 þús. kr., og þarnæst á Flúðum, 178 þús. kr.

Skýrsluhöfundar skoða einnig þróunina innan svæða og eftir landshlutum frá árinu 2014. Á höfuðborgarsvæðinu er heildarorkukostnaður fyrir viðmiðunareignina hæstur í Hafnarfirði og vesturhluta Garðabæjar, 234 þús. kr. Næsthæsti heildarkostnaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er í Reykjavík, Kópavogi og austurhluta Garðabæjar, 221 þúsund kr. Þar hefur hann lækkað um 6% frá 2014.

Í Grundarhverfi á Kjalarnesi er heildarorkukostnaður 202 þús. kr. og hefur lækkað um 6,8% síðan 2014. „Lægsti heildarkostnaður höfuðborgarsvæðisins og á landinu öllu er á Seltjarnarnesi, 163 þ.kr., en hann hefur lækkað nokkuð frá árinu 2021, eða um 9,8%. Heildarorkukostnaður viðmiðunareignar á höfuðborgarsvæðinu er svo næstlægstur í Mosfellsbæ, 183 þ.kr., þar sem hann hefur lækkað um 13,6% síðan 2014,“ segir í skýrslunni.

Frá 2014 hefur heildarkostnaðurinn lækkað í Grímsey um 15,1% og um 27,8% á Bakkafirði, um 23,2% á Þórshöfn og Raufarhöfn og um 23,2% í Ólafsvík, Grundarfirði, á Hellissandi og Rifi frá 2014 svo dæmi séu tekin.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu á fimmtudaginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert