Þúsund manns verður í dag hleypt til Grindavíkur til þess að vitja eigna sinna. Nokkur umferð var í og úr bænum en gert er ráð fyrir að um 800 bílar muni leggja leið sína í bæinn í dag.
Á lokunarpóstum mátti sjá starfsfólk sem skannaði QR-kóða hjá öllum sem lögðu leið sína inn í bæinn en með þeim hætti telur lögreglan sig vita hvað margir eru í Grindavík hverju sinni.
Þau sem töldu sig ekki geta útvegað sér geymslurými sjálf hafa fengið svör um að hægt verði að koma þeirra búslóð í geymslur sem staðsettar eru á Flugvöllum 20 í Reykjanesbæ að því er fram kemur í tilkynningu almannavarna. Tekið verður á móti búslóðum frá 11:00 til 23:00.
Í gærkvöld voru sendir yfir 600 QR-kóðar til þeirra sem höfðu fengið úthlutaðan tíma í fyrramálið klukkan átta og á morgun verða sendir yfir 500 QR-kóðar fyrir þau sem fara inn i bæinn klukkan 15.00.