6,5 milljónir rúmmetra af kviku í kvikuhólfið

Hraun flæddi inn í Grindavík í janúar.
Hraun flæddi inn í Grindavík í janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt líkanreikningum Veðurstofu Íslands höfðu núna um mánaðamótin flætt um 6,5 milljónir rúmmetra af kviku inn í kvikuhólfið undir Svartsengi frá goslokum í janúar.

Það er um það bil sama magn og er talið hafa farið í kvikuinnskotið og eldgosið 14. janúar. Þess vegna er viðbúið að það dragi til tíðinda á næstu dögum á svæðinu.

Þetta kemur fram í facebookfærslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands.

„GPS stöðvar í grennd við Svartsengi hafa sýnt landris upp á um 8 mm á dag síðustu vikur. Nokkuð virðist hinsvegar hafa hægst á rishraðanum allra síðustu daga, líkt og meðfylgjandi myndir sýnir af lóðréttri færslu við Eldvörp og á Þorbirni,” segir einnig í færslunni.

Fram kemur að mjög sambærilegur ferill hafi verið sýnilegur í aðdraganda inskotanna tveggja í nóvember og desember.

„Hafa skal þó í huga að nokkrir tímabundir hnökrar hafa komið fram á mælum síðustu vikum á risinu sem mögulega má tengja við veður og snjó.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert