Andlát: Jón Karlsson

Jón Karlsson, fv. verkalýðsleiðtogi, er látinn, 86 ára að aldri.
Jón Karlsson, fv. verkalýðsleiðtogi, er látinn, 86 ára að aldri.

Jón Karl Karlsson, fv. formaður Verkalýðsfélagsins Öldunnar á Sauðárkróki, lést á  Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki 1. febrúar sl., 86 ára að aldri.

Jón fæddist á Mýri í Bárðardal 11. maí 1937 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Karl Jónsson, bóndi á Mýri og verkamaður, og Björg Haraldsdóttir, húsfreyja og verkakona.  Systur Jóns eru: Sigríður, f. 1933, d. 2022, Hildur Svava, f. 1942, og Aðalbjörg, f. 1943.

Jón lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum 1956. Hann var verkamaður hjá Mjólkursamlagi Skagfirðinga 1958-68, fulltrúi Verðlagsstofnunar á Norðurlandi vestra 1968-73, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs stéttarfélaga í Skagafirði 1970-92 og umboðsmaður Brunabótafélags Íslands á Sauðárkróki 1974-88.

Jón sat í stjórn Verkamannafélagsins Fram (síðar Aldan stéttarfélag) frá 1966 og var formaður þess 1967-2004, formaður Alþýðusambands Norðurlands 1973-75, sat í sambandsstjórn ASÍ frá 1968 sem varamaður og síðan sem aðalmaður frá 1972 og í áratugi. Jón var fulltrúi á öllum þingum ASÍ frá 1968 og þingforseti 1984-2000, sat í framkvæmdastjórn VMSÍ 1981-97, var varaformaður þess frá 1991 og fulltrúi VMSÍ á aðalfundum Nordisk fabriksarb. federation frá 1982 og í ýmsum öðrum norrænum nefndum til 1997.

Jón var bæjarfulltrúi á Sauðárkróki 1974-82, forseti bæjarstjórnar 1974-78 og formaður bæjarráðs 1980-82. Hann sat í stjórn Fjórðungssambands Norðlendinga 1976-82, í stjórn Verkamannabústaða á Sauðárkróki og formaður húsnæðisnefndar.  Einnig starfaði hann ötullega í Alþýðuflokknum á landsvísu.

Jón starfaði í Lionsklúbbi Sauðárkróks frá 1967, var formaður hans 1973-74 og 1999-2000, var umdæmisstjóri B-umdæmis Lions-hreyfingarinnar á Íslandi 1984-85, fjölumdæmisritari 1985-86 og var formaður sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju 1987-93. Jón skrifaði margar greinar í blöð og tímarit um stjórnmál og verkalýðsmál. Hann var kjörinn Melvin Jones-félagi Lions-hreyfingarinnar 1988 og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2011 fyrir störf að verkalýðsmálum og réttindabaráttu.

Eiginkona Jóns var Hólmfríður Friðriksdóttir, f. 3. júlí 1937, d. 2. febrúar 2013. Þau eignuðust þrjú börn: Brynhildi Björgu, f. 1959, maki Sigmundur Ámundason.  Þau eiga þrjá syni, sjö barnabörn og eitt barnabarnabarn;  Friðrik, f. 1960, maki Inga Dagný Eydal.  Þau eiga þrjú börn og sjö barnabörn; Karl, f. 1969, maki Guðný Jóhannesdóttir. Þau eiga fimm börn og þrjú barnabörn.

Útför Jóns fer fram frá Sauðárkrókskirkju mánudaginn 12. febrúar klukkan 14.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert