Héraðssaksóknari hefur ákært tvítugan karlmann fyrir tilraun til manndráps vegna skotárásar sem átti sér stað í Úlfarsárdal í nóvember. Héraðssaksóknari segir að maðurinn hafi stofnað lífi og heilsu þeirra sem fyrir voru sem og íbúum í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt.
Fram kemur í ákæru að maðurinn sé ákærður fyrir tilraun til manndráps, hættubrot og eignaspjöll, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 2. nóvember 2023, á gatnamótum Skyggnisbrautar og Silfratjarnar í Reykjavík, skotið fjórum skotum í átt að A, B, C og D, en ákærði beindi óþekktu skotvopni með 9 mm hlaupi í átt að þeim þar sem þeir stóðu utandyra við X, og hleypti af byssunni.
Fram kemur að skotin hafi hafnað í fæti B, á bifreið, sem stóð framan við X, og í íbúðarhúsnæði að Y.
„Afleiðingarnar voru þær að B hlaut sár á hægri sköflung, eitt sár framhliðlægt á fjærhluta sköflungssvæðis hægra megin og annað hinum megin á sköflungssvæðinu, brot á sköflungsbeini og mar sjáanlegt hliðlægt á sköflungi. Þá brotnaði afturrúða og afturhleri bifreiðarinnar dældaðist og rúða í íbúð að Y brotnaði, auk ákoma á veggi en íbúar hússins, fjögurra manna fjölskylda, voru sofandi innandyra er skotið hafnaði í íbúðinni. Með háttsemi sinni stofnaði ákærði lífi og heilsu þeirra sem fyrir voru sem og íbúum hússins að Y í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt,“ segir í ákærunni.
Sá sem særðist í árásinni gerir kröfu um að ákærða verði gert að greiða honum 3,5 milljónir kr. í miskabætur.
Fjórir aðrir fara einnig fram á miskabætur, samtals 5,5 milljónir kr.