„Mín starfsemi er auðvitað þannig að ég er háður þessum gögnum sem Veðurstofan býr yfir, bæði spágögnum og ekki síður þessum veðurgagnatöflum sem eru að mörgu leyti mjög góðar,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, sem heldur úti veðurspárvefnum Bliku sem birtir veðurupplýsingar hvaðanæva af landinu.
Nokkur umræða hefur undanfarið spunnist af breytingum hjá Veðurstofu Íslands varðandi aðgengi að þeim gögnum sem stofan heldur utan um. Gagnrýndi Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði við Háskóla Íslands, þetta skerta aðgengi nýlega í viðtali við mbl.is en í kjölfarið fylgdi svar Ingvars Kristinssonar, framkvæmdastjóra athugana- og upplýsingatæknisviðs Veðurstofunnar, sem lesa má handan tengilsins hér að neðan en þar er enn fremur hlekkjað í viðtalið við Harald.
Kveður Einar Veðurstofuna hafa staðið vel að því að miðla spákortum úr brunninum svokallaða „og ég hef átt í ágætissamstarfi við þá um miðlun á spágögnum úr IGB-líkaninu þeirra, það er birt á Bliku og hægt að bera saman spárnar. Þeir gagnastraumar hafa alveg gengið og koma fjórum sinnum á sólarhring alveg sjálfvirkt og þarf ekki að sækja gögn sérstaklega í hvert sinn. Eins skrár með mælingum frá veðurratsjám sem sóttar eru í rauntíma.“
Hann segir það hafa verið bagalegt „og eiginlega Veðurstofunni til skammar hve seint hefur gengið að koma á opnun veðurgagnagrunnsins. Þá er verið að tala um töflurnar með mælingum og veðurathugunum áratugi aftur í tímann. Þetta er búið að vera sagan endalausa að fá aðgang. Ég hef haft þann háttinn á að fara bara á Veðurstofuna og hef haft leyfi til að fara þar í ákveðna tölvu og inn fyrir eldvarnaveggina til að sækja það sem ég þarf en upp á síðkastið hafa menn verið að skipta um þessa grunna þannig að nýjustu upplýsingar hafa ekki bæst við töflurnar, heldur farið í nýjan grunn,“ segir veðurfræðingurinn.
Hann segir að vegna óhagræðisins þurfi starfsfólk Veðurstofunnar að eyða miklu púðri í að svara fyrirspurnum utan úr bæ. „Þetta er svipað og ef þú færir inn á Hagstofuvefinn, sem er mjög fínn, en þyrftir að senda fyrirspurn með tölvupósti um hvernig byggingarvísitala hefði verið að þróast síðustu fimm árin, mannfjöldi í Hafnarfirði eða hve margir Kínverjar hafi farið um Keflavíkurflugvöll hvern mánuð síðustu árin,“ notar Einar sem líkingu.
Hins vegar séu allar framangreindar upplýsingar aðgengilegar á vef Hagstofunnar og svipað ætti að vera uppi á teningnum hjá Veðurstofunni. „En þetta hefur tekið allt of langan tíma að koma þessu í lag á Veðurstofunni og ég heyri það alveg á mönnum þar að það er enginn sem vill hafa þetta svona – menn vilja hafa þetta í lagi. Mín upplifun er samt ekki sú, að minnsta kosti upp á síðkastið, að Veðurstofan vilji bara halda þessu hjá sér og loka, þessi gögn tilheyri bara henni,“ segir hann enn fremur.
Honum hafi nýlega, í heimsókn á Veðurstofuna, verið sýnt nýtt gagnagrunnsviðmót, ekki ósvipað því sem Hagstofan býður upp á. Það sé hins vegar ekki komið í gagnið enn og játar Einar að hann bíði þess spenntur. „Ég fagnaði þessu mjög og hvatti menn til að opna á það sem fyrst,“ segir hann. „Allt í þessum efnum virðist hins vegar taka tíma sem hingað til hefur mælst í árum frekar en mánuðum,“ heldur Einar áfram og nefnir dæmi frá Noregi.
„Norðmenn voru langfyrstir í að koma öllum staðarspám á netið þegar þeir byrjuðu með Yr.no,“ segir hann og rifjar upp námsár sín í Noregi þegar Anton Eliassen, síðar forstjóri norsku veðurstofunnar Meteorologisk Institutt, kenndi honum eitt námskeið. Tölvuklárir krakkar – að því er sagan segi – hafi farið á fund Eliassens þegar hann var tekinn við stjórn stofnunarinnar og lagt fyrir hann hugmynd um að tengja veðurspár víða um Noreg við stórt Excel-skjal með hnitum þúsunda staða í Noregi.
Þannig varð norski veðurvefurinn Yr.no til í september 2007, löngu áður en aðrar þjóðir tóku sambærilega þjónustu upp, og færði norska veðurstofan allar sínar staðarspár yfir á Yr sem í dag er slíkt stórveldi að þar má fletta upp veðri á þrettán milljónum staða í heiminum og í frétt norska ríkisútvarpsins NRK frá því í september 2021 kom fram að heimsóknir á vefinn mánuðinn áður hefðu verið 85 milljónir en 116 milljónir hefðu notað app honum tengt sama tímabil.
„Ég fór af stað með Bliku hjá mér sem byggir dálítið á Yr og er með staðarspár fyrir tíu þúsund staði en hafði um skeið spurt Veðurstofuna hvenær þeir ætluðu að koma með Yr.is. Þar var fátt um svör þar til að lokum þegar mér var sagt að það væri ekki á dagskrá þar að fara að gera staðarspár fyrir aðra staði, en þar sem mælt væri, svo þá fór ég bara og gerði þetta sjálfur,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur að lokum.