Möguleg smit í fyrsta lagi í lok vikunnar

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki hafa komið upp fleiri mislingasmit hér á landi síðan ferðamaður, sem kom til landsins á fimmtudag, greindist með mislinga á Landspítala. Guðrún Aspelund sótt­varna­lækn­ir segir það koma í fyrsta lagi í ljós í lok vikunnar ef hann hefur smitað einhvern.

„Meðgöngutími mislinga er oftast svona 10-12 dagar en hann getur verið vika til þrjár vikur. Það þýðir að þetta er sá tími sem fólk fer að fá einkenni. Þannig að smit út frá þessum tiltekna einstaklingi, við færum þá að búast við því í fyrsta lagi í seinnipart vikunnar,“ segir Guðrún en sá smitaði kom til landsins á fimmtudag.

Útsettir hafa fengið skilaboð

Einhverjir einstaklingar hafa fengið skilaboð með þeim upplýsingum að þeir hafi verið útsettir fyrir smiti. 

Guðrún segir þá sem eru bólusettir og útsettir ekki þurfa að hafa áhyggjur en þeir sem eru óbólusettir og útsettir þurfa að hugsa sig vel um hvort þeir mæti til vinnu og hverja þeir umgangist næstu vikur því þeir eru í hættu að smitast. Þeir sem eru bólusettir eru mjög ólíklegir til að smitast.

Fólk getur verið smitandi í 1-2 daga áður en einkenni koma í ljós. 

Hún segir að fólk sem er óbólusett og var útsett fyrir smiti sé hvatt til að bólusetja sig núna. Það er verið að bjóða upp á það. Þangað til, og ef fólk ákveður af einhverjum ástæðum að láta ekki bólusetja sig, þá ætti það fólk að fara sérstaklega varlega í þessar þrjár vikur.

Hvatt er til þess að fólk með börn, sem eru of ung til að fá bólusetningu, fari varlega. Mikilvægt er þó að hafa í huga að þetta er ekki útbreitt eins og staðan er núna. Það er því ekki ástæða til að vera með einhverjar yfirlýsingar, segir Guðrún.  

Ágæt staða á bóluefnum á landinu

Þegar spurð um stöðu bólefna á landinu segir Guðrún stöðuna vera góða.

„Við erum fyrst og fremst að hugsa um þá óbólusettu sem eru útsettir núna. Síðan næst þar á eftir erum við að hugsa um þá sem eru óbólusettir, þá eru það börnin sem eru í forgangi, börn eldri en 18 mánaða. Síðan erum við að bjóða fullorðnum sem eru óbólusettir í bólusetningu.“

Bólusetningarþátttaka mætti vera hærri hér á landi.
Bólusetningarþátttaka mætti vera hærri hér á landi. Ómar Óskarsson

Þá bætir hún við að fólk sem er fætt fyrir 1970 og hefur búið að mestu á Íslandi þurfi líklegast ekki bólusetningu vegna þess að það fólk er álitið hafa fengið mislinga áður. Þá var ekki byrjað að bólusetja og mislingar voru oft að ganga á Íslandi. 

Upplýsingar um bólusetningu nú aðgengilegri á Heilsuveru

Það hefur reynst sumum óljóst hvernig nálgast megi upplýsingar um hvort þeir séu bólusettir á Heilsuveru. Búið er að breyta þessu á Heilsuveru segir Guðrún og ættu upplýsingarnar að vera skýrar. 

Fólk getur nálgast upplýsingar um bólusetningar sínar gegn mislingum í Heilsuveru undir flipanum „bólusetningar“. Þar velur fólk svo „bólusett gegn“ flipann og ætti að sjá þar þá sjúkdóma sem það er bólusett gegn. Það er mmr bóluefnið sem veitir ónæmi gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum. 

Bólusetningarhlutfall ekki nógu gott á Íslandi

Að sögn Guðrúnar hefur almenn þátttaka verið góð í bólusetningum hér á landi en með þessa tilteknu bólusetningu hefur þátttakan aldrei verið fullkomin.

„Þátttaka í bólusetningunni á Íslandi hefur dvínað og er komin niður fyrir það mark sem við þurfum að hafa til að hjarðónæmi myndist,“ bætir Guðrún við.

Landspítali í Fossvogi.
Landspítali í Fossvogi.

Faraldurinn ástæða slakrar bólusetningar

Til þess að hjarðónæmi nái að myndast þarf bólusetningarhlutfall að vera 95% en er nú rétt um 90% miðað við tölur frá 2022. 

Hún telur þessa þróun í bólusetningum hér á landi aðallega vera sök um Covid 19-faraldursins. Bæði varð aðgengi að bólusetningum verra og álag á heilbrigðiskerfið mikið. Hún segir vantraust til bólusetninga ekki vera sérstaklega áberandi hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka