Mótmæltu aðgerðarleysi stjórnvalda við Alþingi

Um 200 manns voru saman komin á mótmælunum.
Um 200 manns voru saman komin á mótmælunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 200 mótmælendur komu saman fyrir utan Alþingi í dag. Mótmælendur vilja koma á breytingum í málum er varða fjölskyldusameiningar og alþjóðlega vernd fyrir Palestínufólk á Íslandi.

Í yfirlýsingu frá No Borders Iceland, sem boðuðu til mótmælanna, eru íslensk stjórnvöld sökuð um lygar og aðgerðarleysi og hafi því með beinum hætti komið í veg fyrir að fólki, sem eigi rétt á fjölskyldusameiningu, sé bjargað undan þjóðarmorði Ísraelshers á palestínsku þjóðinni. 

Það segja samtökin ljóst í kjölfar fréttaflutnings RÚV um að hin Norðurlöndin hafi aðstoðað fólk sem ekki eru ríkisborgarar út af Gasasvæðinu á grundvelli fjölskyldusameiningar og að íslenskir ráðherrar hafi því logið blákalt um stöðuna.

Gagnrýnt var að Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra hafi ítrekað vísað til greinagerðar utanríkisráðuneytisins um að önnur nágrannalönd Íslands aðstoði ekki fólk út af Gasasvæðinu að undanskildum ríkisborgurum sínum. 

Um 200 manns voru saman komin við Alþingishúsið.
Um 200 manns voru saman komin við Alþingishúsið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hin Norðurlöndin aðstoði dvalarleyfishafa og fjölskyldur

Í kvöldfréttum RÚV á föstudaginn kom fram að ráðherrarnir hefðu farið með rangfærslur. Utanríkisráðuneyti nágrannaþjóðanna hafi staðfest við fréttastofu RÚV að þau hafi aðstoðað aðra en ríkisborgara út af Gasasvæðinu.

Guðrún hefur gagnrýnt þessa framsetningu og sagt hana byggða á ónákvæmu orðalagi sem hún hafi síðar leiðrétt. Því sé fullyrðing í umfjöllun Rúv röng í málinu.

Í svörum utanríkisráðuneytanna við fyrirspurn RÚV sagði að sænsk stjórnvöld hafi aðstoðað 550 manns af Gasasvæðinu, bæði eigin ríkisborgara og einstaklinga sem hafi fengið dvalarleyfi, samkvæmt utanríkisráðuneytinu þar í landi.

Norsk stjórnvöld hafi einnig aðstoðað 270 manns út af Gasasvæðinu, þar af 38 með dvalarleyfi í Noregi eða foreldrar norskra barna sem flúðu með börnum sínum.

Í svari Finnlands segi að ekki sé gerður greinarmunur á milli finnskra ríkisborgara eða dvalarleyfishafa. Einnig fái nánir fjölskyldumeðlimir aðstoð stjórnvalda við að komast út af svæðinu séu þeir í för með ríkisborgara eða dvalarleyfishafa.

Danir hafi í einstaka tilfellum aðstoðað nána fjölskyldumeðlimi danskra barna út af Gasasvæðinu, séu þeir í fylgd með dönskum börnum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert