Yfir 1.000 manns munu fara til Grindavíkur í dag til að vitja eigna sinna og verða um 400 bílar í hverju tímahólfi eins og í gær.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum en í gær fóru yfir 1.200 manns til bæjarins, langstærsti hópurinn íbúar.
„Vel gekk að koma íbúum inn í bæinn frá tveimur áttum eða frá Nesvegi og Suðurstrandavegi,” segir í tilkynningunni.
Með kerfinu sem notað var hafi viðbragðsaðilar haft yfirsýn yfir fólkið sem var innan bæjarmarkanna.
„Umsóknir vegna aðstoðar við íbúa í Grindavík eru margar. Mikil vinna er í gangi við yfirferð á þeim og verður þeim öllum svarað. Þegar aðstoð við íbúa, sem hafa óskað eftir henni verður veitt þá verður það óháð fyrir fram ákveðnum tímaáætlunum,” segir einnig í tilkynningunni.