Beinn kostnaður vegna útlendingamála á Íslandi nam á síðasta ári rétt rúmlega 20 milljörðum króna.
Frá árinu 2020 hefur beinn kostnaður vegna útlendingamála aukist um 223% og ef litið er aftur til ársins 2012 hefur kostnaður vegna málaflokksins aukist um 4.919%. Ekki kom fram hver kostnaðurinn var frá árunum 2013-2019.
Þetta kemur fram í svörum dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sagði í Spursmálum á mbl.is síðastliðinn föstudag að áætlaður beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna móttöku flóttamanna myndi nema 16 milljörðum króna á þessu ári og það sama væri uppi á teningnum fyrir næsta ár.
Hælisleitendur sem sóttu hér á landi um vernd á síðasta ári voru 4.157 talsins. Fram kemur í svörum ráðuneytisins að í útgjöldunum vegi langþyngst þjónusta við hælisleitendur, sem kostaði um rúmlega 10,8 milljarða á síðasta ári.
Þar á eftir kemur endurgreiðsla félagsþjónustu til sveitarfélaga sem nam tæplega fjórum milljörðum og svo fóru rúmlega 2,156 milljarðar í málakostnaðarlið hælisleitenda.
Innflytjendaráð og móttaka flóttamanna kostaði rúmlega 1,4 milljarða og tæpur milljarður fór í Útlendingastofnun. Aðrir kostnaðarliðir námu undir einum milljarði króna hver.
Ná þessi útgjöld bæði yfir starfsemi dómsmálaráðuneytisins og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins er varðar útlendingamál.
Árin 2020 og 2021 stóð kostnaður vegna útlendingamála í stað í rúmlega sex milljörðum en árið 2022 tvöfölduðust útgjöld vegna málaflokksins og urðu rúmlega 12 milljarðar.
Á milli áranna 2022 og 2023 jókst kostnaður vegna málaflokksins því um rétt rúmlega 65,3%.