Dagaspursmál: Telur gos líklegt „mjög fljótlega“

Þessi vegur í Grindavík er nær óþekkjanlegur sem slíkur, eftir …
Þessi vegur í Grindavík er nær óþekkjanlegur sem slíkur, eftir þær hamfarir sem dunið hafa yfir. mbl.is/Eyþór Árnason

„Mér sýnist hægt og rólega vera að stefna í gos. Það er farið að hægjast á landrisi eins og fyrir síðustu atburði og ég sé ekki annað en að það fari að gjósa mjög fljótlega.“

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram þótt aðeins hafi hægst á landrisinu þar síðustu daga.

Líklegt að gos verði á svipuðum stað

Samkvæmt nýuppfærðum líkönum er magn kviku undir Svartsengi nú metið um níu milljón rúmmetrar.

Áætlað er að um 9-13 milljón rúmmetrar hafi streymt frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi þegar kvika hljóp þaðan og gaus nærri Hagafelli þann 14. janúar.

Þorvaldur telur að það sé aðeins dagaspursmál þar til fari að draga til tíðinda. Ef gos verði þá verði það á svipum stað og það sem braust út 14. janúar.

Kerfið komið að þolmörkum

„Ég var nú aðeins að velta því fyrir mér í síðustu viku hvort það byrji ekki bara að gjósa 8. eða 9. febrúar. Systir mín á afmæli þann 8. og konan mín 9. febrúar,“ segir Þorvaldur í léttum tón.

Hann segir að kerfið sé komið að þolmörkum og þegar það gerist þá geti gosið hvenær sem er. 

„Ég reikna fastlega með því að kvikan komi upp á svipuðum stað og síðast. Hreyfingin á skjálftunum við ganginn er við þennan veikleika sem kvikan hefur verið að nýta sér til þess að komast upp. Þar er greiðasta leiðin fyrir kvikuna að komast upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert