„Mér finnst vera teikn á lofti um að eitthvað sé að fara af stað þarna. Þessi hrina er þessleg.“
Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, um þá jarðskjálftahrinu sem vart hefur orðið á Reykjaneshrygg djúpt suður af Íslandi.
Stærsti skjálftinn mældist 5,4 stærð laust fyrir klukkan 14 í gær. Fleiri hrinur hafa mælst á liðnum mánuðum, eins og mbl.is hefur greint frá.
Þorvaldur telur að skjálftahrinan á Reykjaneshryggnum geti alveg tengst þeim atburðum sem átt hafa sér stað á Reykjanesskaganum að undanförnu.
Spurður hvað hann lesi út úr þessari hrinu segir Þorvaldur:
„Þessir skjálftar eru á 6-7 kílómetra dýpi, sem þýðir að kvika sé ekki að koma beint upp strax, en hún gæti verið að safnast fyrir þarna undir. Það gæti því alveg farið að gjósa þarna.“