„Klifað er á neyðarástandi og orkuskorti“

Landvernd boðar til fundar.
Landvernd boðar til fundar. mbl.is/​Hari

„Upplýsingaóreiða um orkumál er ríkjandi, til dæmis hefur komist í vana að spyrða saman orkuskiptin og gríðarlega aukna raforkuframleiðslu þótt orkan sé ætluð í allt annað en orkuskipti.

Klifað er á neyðarástandi og orkuskorti hjá þjóð sem framleiðir meiri endurnýjanlega orku á mann en allar aðrar þjóðir,“ segir meðal annars í tilkynningu frá Landvernd sem boðar til samráðsfundar náttúruverndar 10. febrúar.

Ber fundurinn yfirskriftina „Sameinum krafta – Samráð náttúruverndar á Íslandi“. Á fundinum er ætlunin að stilla saman strengi náttúruverndarbaráttu á Íslandi, styrkja tengingar á milli fólks og félaga og stuðla að aukinni samvinnu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landvernd.

Segja gullhúðun til að tryggja íslenska náttúru

Segir í tilkynningunni að sótt sé að íslenskri náttúru af meiri krafti en nokkurn tíma áður um allt land.

„Fjölbreyttar orkufrekar stórframkvæmdir, vindorkuver og virkjanir sem hefðu óafturkræf áhrif á hálendið og alla náttúru Íslands eru á skipulagsstigi. Oft framkvæmdir sem enginn hefur óskað eftir, nema fjárfestar með hagnaðinn einan að leiðarljósi,“ segir í tilkynningunni.

Þá gerir tilkynningin gullhúðun regluverks að umræðuefni og segir það að gullhúðun á regluverk ESB séu viðbætur til að tryggja náttúru Íslands en grunnskilyrði kveða á um. Þá segir í tilkynningunni að náttúruverndarlög séu ekki virt og að loftslagsaðgerðir fái helst brautargengi ef hægt sé að hagnast á þeim.

Fundurinn er haldinn í salnum Miðgarði í Úlfarsárdal frá kl. 13 til 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert