Vilja falla frá áformum um flugvöll í Hvassahrauni

Hvassahraun.
Hvassahraun. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins mun leggja fram tillögu á borgarstjórnarfundi í dag um að fallið verði formlega frá áformum um flugvöll við Hvassahraun.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við mbl.is að fólk verði að horfast í augu við það að „draumurinn um Hvassahraun verður ekki að veruleika“.

Fjárhagsáætlun borgarinnar gerir ráð fyrir því að 20 milljónum króna verði varið á þessu ári í frekari rannsóknir á fýsileika þess að færa Reykjavíkurflugvöll í Hvassahrauni.

Í tillögu sjálfstæðismanna er lagt til að fallið verði frá frekari fjárframlögum til þess, en þeir lögðu einnig fram slíka tillögu í desember á síðasta ári.

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins vill að fallið verði frá áformum um flugvöll …
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins vill að fallið verði frá áformum um flugvöll í Hvassahrauni. mbl.is/Jón Pétur

Hvassahraun verður aldrei fýsilegur kostur

„Á undanförnum vikum hafa helstu sérfræðingar landsins, hvort sem það eru eldfjallafræðingar eða jarðfræðingar, verið í panel í helstu miðlum landsins að greina frá því að staðan er alvarleg. Þarna erum við að horfa á svæði sem gæti verið undirlagt jarðhræringum næstu hundruð árin,“ segir Hildur í samtali við mbl.is.

Hún segir að nú sé skynsamlegt að taka pólitíska afstöðu til þess að Hvassahraun sé ekki staðurinn þar sem flugvöllur verður reistur.

„Það er dæmigerð vanvirðing við skattfé almennings að láta sér það í léttu rúmi liggja að verja 20 milljónum króna til viðbótar, í rannsóknir á svæði sem augljóslega getur aldrei reynst fýsilegur kostur undir flugvöll.“

Annar valkostur ekki í augsýn

Hún kveðst taka undir orð Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra sem sagði að Reykjavíkurflugvöllur yrði í Vatnsmýrinni næstu áratugina.

Tryggja þurfi flug- og rekstraröryggi flugvallarins, sem henni finnst meirihlutinn ekki hafa lagt næga áherslu á.

„Það verður ekkert hægt að loka Reykjavíkurflugvelli nema risið hafi annar flugvöllur á öðrum góðum stað og sá staður er ekkert í augsýn. Ef fólk ætlar í þá vegferð þá tekur það gríðarlega langan tíma. Við augljóslega erum að horfa á það að innanlandsflug verður í Vatnsmýri næstu ár og áratugi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka