Bjóðast til að aðstoða íslensk stjórnvöld

Þær María Lilja, Kristín og Bergþóra tóku upp á sitt …
Þær María Lilja, Kristín og Bergþóra tóku upp á sitt einsdæmi að fljúga til Kairó til að hjálpa palestínskum fjölskyldum, sem fengið hafa dvalarleyfi á Íslandi, yfir landamærin frá Gasa. Ljósmynd/Aðsend

Vinkonurnar María Lilja Þrastardóttir, Kristín Eiríksdóttir og Bergþóra Snæbjörnsdóttir hafa nú dvalið í viku í Kairó í Egyptalandi þar sem þær vinna að því á eigin vegum að koma palestínskum fjölskyldum, sem fengið hafa dvalarleyfi á Íslandi, yfir landamærin frá Gasa.

„Við höfum gert íslenskum stjórnvöldum grein fyrir að við séum hér úti og að við séum tilbúnar að aðstoða hvern þann erindreka sem kann að koma frá Íslandi, það væri minnsta mál. Við erum allar boðnar og búnar til þess að vera hérna lengur og taka á móti fólki,“ segir María í samtali við mbl.is og bætir því við aðspurð í framhaldinu að íslensk stjórnvöld hafi ekki sett sig í samband við þær. 

Staðan er hræðileg fyrir börn á Gasa.
Staðan er hræðileg fyrir börn á Gasa. AFP

„Við komum í rauninni hingað í skjóli okkar forréttinda, fyrir hönd alsírskra vina okkar sem höfðu leiðbeint okkur hvaða leiðir væru mögulegar hérna og hvernig maður ætti að komast í samband við diplómata og fleiri aðila. Þeir hjálpuðu okkur með túlka og annað þannig að við eigum ekki mikinn heiður af allri grunnvinnunni, bara svo það komi skýrt fram. Það eru palestínsku fjölskyldurnar sem þekkja kerfið hérna vel sem leiðbeindu okkur í upphafi,” segir hún.

Fengu nóg og tóku málin í sínar hendur

Innt eftir því hvernig hugmyndin að ferðinni hafi kviknað segir María hana eiginlega hafa verið ákveðna í hvatvísi.

„Við fengum bara alveg nóg og hugsuðum með okkur að láta á þetta reyna og sjá hversu erfitt þetta yrði. Við mættum hingað út fyrir viku síðan og fórum þá á fund ásamt túlki og erindreka þar sem við lögðum fram okkar erindi. Svo fóru málin bara að þróast út frá því.” 

Nú þegar hafa þær stöllur aðstoðað eina palestínska fjölskyldu yfir landamærin, þrjú börn og móður þeirra. Sjálfur kostaði faðirinn, sem staddur er hér á landi, flutning fjölskyldunnar yfir landamærin en það gerði hann með aðstoð góðra vina að sögn Maríu. Segir hún að birtur sé uppfærður landamæralisti reglulega sem fólkið fylgist mjög náið með.

„Palestínska fólkið bíður eftir því að nöfn ættingja þeirra komi upp á þennan lista sem þýðir að þau megi fara yfir landamærin. Við „presenteruðum“ nöfn þessarar fjölskyldu og þessi gögn frá Íslandi, meðal annars dvalarleyfisbréfið og afrit af vegabréfunum þeirra. Svo biðum við bara eftir að listinn yrði uppfærður og fengum svo þessar frábæru fréttir tveimur sólarhringum síðar.

Þá tók við langt ferðalag og fjölskyldan komst að Rafha-landamærunum.  Þar tók á móti þeim fulltrúi okkar og erindreki sem ók þeim í gegnum svokallað „check-points“ en ég held það séu 12 slík á leiðinni til Kairó frá Rafha. Ferðalagið tekur því svolítinn tíma en loksins í gær dró til tíðinda þegar við fengum loksins að sjá þau,” segir María og bætir því að tilfinningin hafi verið ólýsanleg.

Munu fylgja fjölskyldunni heim

Þá munu þær Kristín og Bergþóra fylgja fjölskyldunni heim til Íslands á næstu dögum en sjálf verður María eftir í Kairó. 

„Þær munu fylgja þeim heim en þau voru bara rétt í þessu að koma af skrifstofu IOM, International Organization for Migration, sem er rekin af Sameinuðu þjóðunum. Þessi sama skrifstofa hefur sagst ætla að greiða fyrir alla för okkar fólks til Íslands. Þannig að þetta kostar ekki einu sinni neitt fyrir íslensk stjórnvöld. Það tekur svo kannski 1-2 daga að fá útgefið ferðaskilríki fyrir þau en svo fylgja stelpurnar þeim til Íslands,“ segir María og bætir því við að þær séu strax komnar með plön um að aðstoða næstu fjölskyldu.

„Þau eru með 3 ára stúlku sem er langveik en það liggur svolítið á að koma barninu undir læknishendur þar sem lyfin hennar eru að klárast núna á næstu vikum. Þetta er alveg hræðilegt, manni líður svona eins og Schindler's List. Við erum með þennan lista af fólki og það kostar í kringum 5000 dollara fyrir einstakling að koma í gegnum landamærin með flutningi, erindreka og með þessari leið sem við fórum en það kostar stjórnvöld ekki neitt.“

Tugir barna sem hafa fengið dvalarleyfi enn á Gasa

Segist María fastlega reikna með því að Bergþóra og Kristín komi aftur út til Kairó.

„Nema auðvitað að íslensk stjórnvöld sendi hreinlega einhvern í dag. Ég meina það er flogið hingað mjög reglulega svo það er lítið mál að komast hingað til Kairó og sérstaklega með diplómatapassa, þá eru flestir vegir færir,“ segir hún.

Spurð í framhaldinu hvort hún haldi þá að íslensk stjórnvöld muni bregðast enn hraðar við núna, vitandi af þeim á svæðinu, segir María í raun ómögulegt að segja til um það.

„Við viljum treysta á mennskuna í stjórnvöldum og vitum að þau eru fólk eins og við og öll finnum við fyrir samkennd með börnum sem eru í stríði. Nú er Gasa hættulegasta svæði fyrir börn í heiminum og við erum með 70 litla einstaklinga á þessum hættulega stað, sem bíða eftir því að hitta pabba sinn og mömmu sem bíða heima á Íslandi.

Ég trúi ekki öðru en að stjórnvöld bregðist núna hratt við þegar við erum búin að sýna fram á að þetta er ekki svona mikill ómöguleiki. Fyrst að þetta ferli hér fyrir okkur, sem ekki höfum diplómatapassa eða neina reynslu í utanríkismálum, tekur þetta skamman tíma að þá hljóta íslensk stjórnvöld hreinlega að geta gert þetta í einum rykk,” segir hún.

Löndin sameinast um aðstoðina

Þá segir María einstakt að sjá og heyra hvernig allir hjálpist að og hversu samheldnin sé sterk.

„Ég get sagt þér það að við höfum talað hér við diplómata frá öðrum Evrópulöndum sem segja okkur það að hér vinna allir saman. Fólk er að sameinast um rútur og sameinast jafnvel um erindreka og diplómata. Það er portúgalskur konsúll hérna sem hefur ekki getað farið neitt úr sinni höfuðstöð vegna þess að hann er alltaf á vaktinni ef eitthvað kemur upp á.

Það hefur verið talað um það, og fólk sem við höfum rætt við hér, hefur haft orð á því að Ísland sé eina Evrópulandið sem hefur ekki látið sjá sig hérna og hefur ekki verið í nánu samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir. Einnig að Ísland sé með þessu að setja mjög undarlegt fordæmi.“

Kostnaðurinn ekki metinn til fjár

Sett hefur verið af stað lands­söfn­un til að koma fleira fólki, sem hef­ur fengið dval­ar­leyfi á grund­velli fjöl­skyldusam­ein­ing­ar frá Gasa, heim til Íslands.

„Nú höfum við ásamt Solaris samtökunum hrint af stað neyðarsöfnun, landssöfnun, þar sem við hvetjum fólk hreinlega til þess að leggja okkur lið við að koma fleiri einstaklingum til Íslands, koma fólkinu okkar heim,“ segir María en sjálfar kosta þær vinkonur ferð sína út.

„Kostnaðurinn verður ekki metinn til fjár. Hann er lítils virði miðað við mannslíf. Við teljum þetta því ekkert eftir okkur,” segir María að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert