„Ekki til að hafa stórar áhyggjur af“

Þorvaldur Þórðarson.
Þorvaldur Þórðarson. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir að jökulhlaupið sem varð úr Grímsvötnum í síðasta mánuði hafi ekki verið sá þrýstiléttir sem menn töldu að gæti verið nægur til að koma af stað eldgosi.

„Miðað við hvernig staðan er á landrisinu í Grímsvötnum og hversu langur tími er liðin frá síðasta gosi þar þá má búast við gosi í Grímsvötnum á næstunni en það getur líka dregist um nokkur ár,“ segir Þorvaldur við mbl.is, en jökulhlaupið í janúar var lítið.

Grímsvötn gjósa að meðaltali einu sinni til tvisvar á hverjum áratug en seinast gaus þar fyrir tæplega 13 árum. Landrisið er meira en það var að hámarki fyrir síðasta gos og skjálftavirkni hefur aukist á umliðnum árum.

„Við þurfum í sjálfu sér ekki að hafa stórar áhyggjur af Grímsvötnum. Þetta eru gos sem myndu byrja með 10-15 kílómetra háum gosmekki sem yrði í gangi í rúman sólarhring, síðan færi að draga úr gosinu og innan þriggja daga yrði þetta hálfgert púður,“ segir Þorvaldur.

Hann segir að gjóskufallið myndi afmarkast við jökulinn og fólk gæti kannski fundið eitthvað fyrir áhrifum í sveitunum í kring. 

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, sagði við mbl.is í síðasta mánuði að Grímsvötn séu búin að „fylla í alla dálkana“ í undirbúningsferli sínu fyrir eldgos.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert