Ari Jón Arason, íbúi á Nesvegi, segist hafa fengið tilkynningu frá Bílastæðasjóði um að stöðumælasekt sem hann fékk hafi verið felld niður. Er það í kjölfar kæru hans á sektarboðinu. Hann segist þó fullviss um að umfjöllun í fjölmiðlum frá því í síðustu viku hafi haft áhrif.
Ari er einn íbúa sem lagt hefur við innkeyrslu sína án þess að keyra alveg inn í hana árum saman en borgin hóf nýlega að sekta eigendur fyrir að leggja með þessum hætti.
Á Nesvegi er pláss fyrir bíla til að leggja sitt hvorum megin götunnar í akstursstefnu. Eins hafa þeir íbúar sem eiga innkeyrslu sunnan megin við götuna lagt bíl sínum þversum nærri götunni í stað þess að keyra alla leið inn í innkeyrslu, yfir gangstétt sem þar er.
Bíllinn er því ekki úti á götu og ekki inni á gangstétt. Ari segir að íbúar hafi haft þennan háttinn á öryggisins vegna því hætt sé við því að keyra til dæmis á krakka á hlaupahjóli þegar bakkað er út úr innkeyrslu. Þetta hafi verið viðtekin venja í þau átta ár sem hann hafi búið við götuna.
„Ég kærði úrskurðinn á föstudag og fékk niðurfellingu sektarinnar strax. Granninn kærði hins vegar fyrir löngu síðan og hann er ekki búinn að fá niðurfellingu. Það mætti ætla að umfjöllun í fjölmiðlum hjálpi til,“ segir Ari Jón í gamansömum tón.
Hann segir þó sigurinn súrsætan. Sektin var felld niður á þeirri forsendu að hann hafi í raun ekki lagt á gangstétt eins og sagði í sektinni og áfram verður íbúum meinað að leggja með þeim hætti sem þeir hafa gert.