Það var þéttsetið í Hæstarétti í morgun þegar mál Önnu Bryndísar Einarsdóttur gegn íslenska ríkinu var flutt fyrir dómnum. Anna Bryndís stefndi íslenska ríkinu vegna ákvörðunar um að hafna sér um greiðslur í fæðingarorlofi vegna vinnu sem var unnin utan Íslands.
Forsaga málsins er sú að Anna Bryndís fluttist til Íslands í september árið 2019 eftir um fjögurra ára dvöl í Danmörku þar sem hún hafði starfað. Hún hóf störf á íslenskum vinnumarkaði í september 2019 og eignaðist barn í mars 2020. Fæðingarorlofssjóður samþykkti eingöngu greiðslur í orlofi vegna vinnu á Íslandi og námu þær 184 þúsund krónum á mánuði miðað við 100% orlof. Anna Bryndís kærði ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar velferðarmála, en hún staðfesti niðurstöðu Fæðingarorlofssjóðs.
Málið fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í mars í fyrra, en hann staðfesti niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála.
Anna Bryndís óskaði í kjölfarið eftir því að Hæstiréttur myndi taka málið beint upp og vísaði hún meðal annars til þess að úrslit málsins gætu haft verulega almenna þýðingu um beitingu réttarreglna og fordæmisgildi fyrir fjölda einstaklinga sem væru í sömu stöðu og hún. Hæstiréttur varð að beiðninni og fór málið því ekki í gegnum Landsrétt.
Rétturinn var fullskipaður í morgun með sjö dómurum, sem er óalgengt. Almennt skipa fimm dómarar réttinn.
Eins og segir lýtur ágreiningur málsins að því hvort líta eigi til tekna sem aflað er við störf í öðru EES-ríki við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Anna Bryndís byggir mál sitt meðal annars á því að frjálsir fólksflutningar og frjáls för launafólks innan EES-svæðisins sé meðal grundvallarmarkmiða EES-samstarfsins. Samræming almannatryggingakerfa í aðildarríkjum EES-samningsins sé órjúfanlegur þáttur í meginreglunni um frjálsa för fólks. Sú samræming geri launafólki og öðrum kleift að flytjast á milli EES-ríkja án þess að tapa réttindum sínum til almannatrygginga, sem fæðingarorlofsgreiðslur heyri undir. Í þessu felist meðal annars að EES-ríkjum beri að horfa til þess tíma sem starfsmaður hafi unnið í öðru EES-ríki við ákvörðun réttinda til almannatrygginga.
Fyrir dómi sagði Hulda Rós Rúriksdóttir, lögmaður Önnu Bryndísar, héraðsdóm hafa litið framhjá reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um samræmingu almannatryggingakerfa og ákvæði EES-samnings um frelsi launþega til flutninga, sem hafi verið rangt að gera. Túlka verði lög um fæðingar- og foreldraorlof í samræmi við reglugerðina og umrætt ákvæði EES-samningsins. Þá beri að líta á ákvæði samningsins sem sérlög sem gangi framar ákvæðum laga um fæðingar- og foreldraorlof. Bókun 35 hafi þau áhrif.
Fanney Rós Þorsteinsdóttir ríkislögmaður flutti málið fyrir íslenska ríkið í morgun. Í máli hennar kom fram að það yrði í algjörri andstöðu við dómafordæmi ef Hæstiréttur myndi fallast á mál Önnu Bryndísar.
Íslenska ríkið heldur því meðal annars fram að hollusturegla EES-samningsins og bókun 35 eigi ekki við þar sem ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof fari ekki í berhögg við samninginn.
Þá beri að hafa í huga að regluverk EES stefni að því að samræma reglur aðildarríkja um almannatryggingarkerfi, ekki sé stefnt að því að þau verði samhljóða. Samræmisskýring geti ekki leitt til þess að EES-regla gangi sjálfkrafa fram fyrir íslensk lög. Ekki sé því hægt að fara gegn skýru ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof.