Hæstiréttur: EES-reglur gegn íslenskum rétti

Hæstiréttur var fullskipaður í morgun.
Hæstiréttur var fullskipaður í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það var þéttsetið í Hæstarétti í morgun þegar mál Önnu Bryndísar Einarsdóttur gegn íslenska ríkinu var flutt fyrir dómnum. Anna Bryndís stefndi ís­lenska rík­inu vegna ákvörðunar um að hafna sér um greiðslur í fæðingaror­lofi vegna vinnu sem var unn­in utan Íslands.

For­saga máls­ins er sú að Anna Bryndís flutt­ist til Íslands í sept­em­ber árið 2019 eft­ir um fjög­urra ára dvöl í Dan­mörku þar sem hún hafði starfað. Hún hóf störf á íslensk­um vinnu­markaði í sept­em­ber 2019 og eignaðist barn í mars 2020. Fæðingarorlofssjóður samþykkti ein­göngu greiðslur í or­lofi vegna vinnu á Íslandi og námu þær 184 þúsund krón­um á mánuði miðað við 100% or­lof. Anna Bryndís kærði ákvörðun Fæðing­ar­or­lofs­sjóðs til úr­sk­urðar­nefnd­ar vel­ferðar­mála, en hún staðfesti niður­stöðu Fæðing­ar­or­lofs­sjóðs.

Málið fór fyrir Héraðsdóm­ Reykja­vík­ur í mars í fyrra, en hann staðfesti niður­stöðu úr­sk­urðar­nefnd­ar vel­ferðar­mála.

Það var þéttsetið í Hæstarétti í morgun.
Það var þéttsetið í Hæstarétti í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fullskipaður Hæstiréttur

Anna Bryndís óskaði í kjölfarið eftir því að Hæstiréttur myndi taka málið beint upp og vísaði hún meðal ann­ars til þess að úr­slit máls­ins gætu haft veru­lega al­menna þýðingu um beit­ingu rétt­ar­reglna og for­dæm­is­gildi fyr­ir fjölda ein­stak­linga sem væru í sömu stöðu og hún. Hæstiréttur varð að beiðninni og fór málið því ekki í gegn­um Lands­rétt.

Rétturinn var fullskipaður í morgun með sjö dómurum, sem er óalgengt. Almennt skipa fimm dómarar réttinn.

EES-samningur hafi forgangsáhrif

Eins og segir lýt­ur ágreiningur málsins að því hvort líta eigi til tekna sem aflað er við störf í öðru EES-ríki við út­reikn­ing á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Anna Bryndís byggir mál sitt meðal annars á því að frjálsir fólksflutningar og frjáls för launafólks innan EES-svæðisins sé meðal grundvallarmarkmiða EES-samstarfsins. Samræming almannatryggingakerfa í aðildarríkjum EES-samningsins sé órjúfanlegur þáttur í meginreglunni um frjálsa för fólks. Sú samræming geri launafólki og öðrum kleift að flytjast á milli EES-ríkja án þess að tapa réttindum sínum til almannatrygginga, sem fæðingarorlofsgreiðslur heyri undir. Í þessu felist meðal annars að EES-ríkjum beri að horfa til þess tíma sem starfsmaður hafi unnið í öðru EES-ríki við ákvörðun réttinda til almannatrygginga.

Hulda Rós Rúriksdóttir, lögmaður Önnu Bryndísar.
Hulda Rós Rúriksdóttir, lögmaður Önnu Bryndísar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir dómi sagði Hulda Rós Rúriksdóttir, lögmaður Önnu Bryndísar, héraðsdóm hafa litið framhjá reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um sam­ræmingu almannatryggingakerfa og ákvæði EES-samnings um frelsi launþega til flutninga, sem hafi verið rangt að gera. Túlka verði lög um fæðingar- og foreldraorlof í samræmi við reglugerðina og umrætt ákvæði EES-samningsins. Þá beri að líta á ákvæði samningsins sem sérlög sem gangi framar ákvæðum laga um fæðingar- og foreldraorlof. Bókun 35 hafi þau áhrif.

Í andstöðu við dómafordæmi

Fanney Rós Þorsteinsdóttir ríkislögmaður flutti málið fyrir íslenska ríkið í morgun. Í máli hennar kom fram að það yrði í algjörri andstöðu við dómafordæmi ef Hæstiréttur myndi fallast á mál Önnu Bryndísar.

Fanney Rós Þorsteinsdóttir ríkislögmaður.
Fanney Rós Þorsteinsdóttir ríkislögmaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska ríkið heldur því meðal annars fram að hollusturegla EES-samningsins og bókun 35 eigi ekki við þar sem ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof fari ekki í berhögg við samninginn.

Þá beri að hafa í huga að regluverk EES stefni að því að samræma reglur aðildarríkja um almannatryggingarkerfi, ekki sé stefnt að því að þau verði samhljóða. Samræmisskýring geti ekki leitt til þess að EES-regla gangi sjálfkrafa fram fyrir íslensk lög. Ekki sé því hægt að fara gegn skýru ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert