Hömlulaus útgjöld

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er ekki hægt að segja að það séu hömlur á þessu þegar þetta eykst svona stjarnfræðilega á tiltölulega stuttum tíma. Þetta er komið í svo gígantískar tölur að við erum bara ekki samfélag sem getur staðið undir þessu,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið, spurð um mikla útgjaldaaukningu í útlendingamálum.

Búið er að rjúfa 20 milljarða króna múrinn í beinum kostnaði við útlendinga, þá aðallega hælisleitendur, en það gerðist á síðasta ári. Upphaflega voru um 15 milljarðar áætlaðir í útlendingamál árið 2023 en útreikningar ráðuneytisins sýna að útgjöldin námu um 33% meira en áætlað var.

Áætlað er að tæplega 16 milljarðar renni til útlendingamála í ár en ekki er ljóst hvort það muni standast frekar en á síðasta ári. Guðrún kveðst óttast að svo verði ekki og nefnir að það veki ugg hjá sér að áætlað sé að sami fjöldi hælisleitenda sæki hér um alþjóðlega vernd á þessu ári og því síðasta. Hælisleitendur sem sóttu um vernd hér á landi á síðasta ári voru 4.157 talsins.

Graf/mbl.is

„Það liggur alveg í hlutarins eðli að aukningin hingað er alveg gríðarleg og er miklu, miklu meiri en íslenskt samfélag ræður við. Það skrifast fyrst og síðast á það að við erum hér með opnara regluverk heldur en löndin í kringum okkur. Það er bara ákjósanlegra að koma hingað í leit að vernd heldur en til nágrannalandanna,“ segir Guðrún.

Frá árinu 2020 hefur beinn kostnaður vegna útlendingamála aukist um 223% og ef litið er aftur til ársins 2012 hefur kostnaður vegna málaflokksins aukist um 4.919%. Þá jókst beinn kostnaður vegna útlendingamála um 65,3% á milli áranna 2022-2023.

Guðrún segir að lausnin við þessu ástandi sé meðal annars að aðlaga íslenska regluverkið því sem sé til staðar annars staðar á Norðurlöndum.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka