Samkvæmt nýju mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra á hryðjuverkaógn á þessu ári er hættustigið á Íslandi áfram metið á þriðja stigi af fimm en það merkir aukna ógn.
Ógn vegna hugsanlegra hryðjuverkaárása stafar fyrst og fremst frá einstaklingum sem fyrir sakir þess að aðhyllast ofbeldisfulla öfgahyggju og bera hatur til samfélagsins eru reiðubúnir að fremja hryðjuverk.
Í skýrslunni er fjallað um breytingar á skilgreiningu hættustigs vegna hryðjuverkaógnar en sú vinna hefur staðið yfir í töluverðan tíma. Hættustig hér á landi er nú í samræmi við skilgreiningar um hættustig flestra samstarfsríkja Íslands. Í skýrslunni er farið ítarlega yfir þær hættur sem horft var til við gerð matsins.
Þá er í skýrslunni farið yfir þá þróun sem hefur orðið meðal einstaklinga og hópa sem aðhyllast ofbeldisfulla öfgahyggju. Gerð er grein fyrir hugsanlegri framtíðarþróun hryðjuverkaógnar á Íslandi og þeim drifkröftum sem geta haft áhrif þar á.
Tengsl lýðskrums, upplýsingaóreiðu og öfgahyggju er skoðað en saman mynda þessir þættir samtengda öryggisógn sem samhliða örri tækniþróun geta haft neikvæð áhrif á til langs tíma, ekki síst með tilkomu risavaxinna gervigreindarknúinna tungumálalíkana.
Í skýrslunni kemur fram að engar vísbendingar séu um að hryðjuverkahópar séu starfandi á Íslandi. Þá eru ekki vísbendingar um að íslenskir hryðjuverkahópar séu starfræktir erlendis.
Rifjað er upp að fyrsta ákæra vegna brota á hryðjuverkaákvæði hafi verið gefin út árið 2022, en aðalmeðferð í málinu hefst fyrir héraðsdómi á morgun. Var það vegna ætlaðrar tilraunar til hryðjuverka. Þá var í síðasta mánuði fjölskyldu vísað úr landi vegna upplýsinga erlendra samstarfsaðila lögreglunnar um að faðirinn hefði starfað með Ríki Íslams.