Sett hefur verið af stað landssöfnun til að koma fleira fólki sem hefur fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar frá Gasa og heim til Íslands.
Þetta segir í fréttatilkynningu frá Solaris, hjálparsamtökum fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.
„Stjórnvöld hafa brugðist palestínsku þjóðinni og því hafa almennir borgarar tekið málið í sínar hendur. Þrjár konur fóru á dögunum til Egyptalands eftir að þeim blöskraði aðgerðarleysi og mælskubrögð ríkisstjórnarinnar, auk áætlana Ísraelsríkis um árásir á Rafah, þangað sem nær allt fólk á Gasasvæðinu hefur flúið. Þar eru fjölskyldurnar sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar staddar,“ segir í tilkynningunni.
Konurnar sem um ræðir eru María Lilja Þrastardóttir, Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Kristín Eiríksdóttir.
Þar segir að konurnar hafði brugðist við neyðarástandinu og vinni að því á eigin vegum að koma fólki yfir landamærin og nú þegar hefur einni palestínskri fjölskyldu, með dvalarleyfi á Íslandi, verið komið frá Gasa.
„Ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafa stöðugt forðað sér undan því að svara fyrir aðgerðarleysi sitt gagnvart dvalarleyfishöfum á Gasa. Í stað aðgerða gefa þeir í skyn að verið sé að íhuga mögulegar lausnir og að málið sé flókið. Þann 6. febrúar 2024 lýsti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra því yfir í viðtali hjá RÚV að verið væri að skoða aðgerðir sem væru „töluvert umfangsmiklar og flóknar,“ segir enn fremur í fréttatilkynningunni.
Hægt er að styrkja söfnunina með því að leggja beint inn á sérstakan söfnunarreikning Solaris fyrir Palestínu eða með Aur-appinu (mikilvægt að merkja aur-færslur með titlinum Palestína).
Reikningsnúmer: 0515-14-007470
Kennitala: 600217-0380
AUR: 123 791951