Aðalmeðferð í hryðjuverkamálinu svokallaða hefst í fyrramálið í Héraðsdómi Reykjavíkur. Áætlað er að réttarhöldin standi yfir í fimm daga og hefjast þau á því að sakborningarnir tveir, Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson, munu gefa skýrslu fyrir dómi. Í kjölfarið munu ýmis vitni gefa skýrslu svo sem lögreglumenn og aðrir sérfræðingar. Sindri er ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka en Ísidór fyrir hlutdeild í þeirri tilraun.
504 dagar eru síðan tvímenningarnir voru handteknir, eða tæplega eitt og hálft ár, og hefur ýmislegt gengið á í þessu sérkennilega máli síðan þá. Hér verður farið yfir atburðarrás málsins í stórum dráttum.
Það var þann 21. september árið 2022 sem fjölmiðlar birtu fréttir af aðgerðum sérsveitarinnar í Mosfellsbæ og Kópavogi. Í kjölfarið barst tilkynning frá ríkislögreglustjóra þar sem greint var frá því að fjórir einstaklingar hefðu verið handteknir „og hættuástandi afstýrt“.
Í tilkynningunni sagði að mennirnir hefðu verið handteknir í tengslum við yfirstandandi rannsókn embættisins á brotum sem snéru að landráðum og brotum gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess.
„Það er mildi að engan sakaði í aðgerðum lögreglu en handtaka fór skjótt og vel fram,“ sagði í tilkynningunni.
Mörgum var brugðið við þessa tilkynningu en í kjölfarið fengust lítil sem enginn svör hjá embættinu við fyrirspurnum fjölmiðla þar til daginn eftir, 22. september, er boðað var til blaðamannafundar.
Á blaðamannafundi ríkislögreglustjóra var fyrst greint frá því að mennirnir hafi verið handteknir fyrir ætlaðan undirbúning á hryðjuverkum. Kom þá fram að árásarmennirnir hafi beint sjónum sínum að Alþingi og íslensku lögreglunni.
Greint var frá því að lagt hefði verið hald á tugi skotvopna, hálfsjálfvirkra þar á meðal, ásamt þúsundum skotfæra, og að tveir menn á þrítugsaldri hefðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.
Þá kom fram að rannsókn embættisins hafi verið viðamikil og að á einhverjum tímapunkti hafi allt að 50 lögreglumenn verið að störfum vegna málsins.
29. september boðaði ríkislögreglustjóri síðan til annars blaðamannafundar.
Ríkislögreglustjóri sagði sig þá frá rannsókn málsins vegna vanhæfis. Síðar sama dag kom í ljós að þar var um að ræða vanhæfi Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra vegna tengsla föður hennar, Guðjóns Valdimarssonar, við sakborningana.
Sakborningarnir höfðu þá sagst hafa fengið sjálfvirk vopn hjá Guðjóni sem hafði þá rekið vopnasölu á netinu. Húsleit var meðal annars framkvæmd á heimili Guðjóns.
Í desember árið 2022 var loks gefin út ákæra í málinu og nokkrum dögum síðar voru Sindri og Ísidór látnir lausir úr gæsluvarðhaldi. Þeir höfðu þá verið í gæsluvarðhaldi í tæplega þrjá mánuði, en Landsréttur felldi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms þar sem að ekkert benti til þess að mati dómsins að árás hefði verið yfirvofandi eða mjög líkleg. Þá lá fyrir geðmat dómskvadds matsmanns þess efnis að sakborningar væru engum hættulegir, hvorki sjálfum sér né öðrum.
Héraðssaksóknari krafðist aftur gæsluvarðhalds yfir mönnunum í kjölfarið en þeirri beiðni var hafnað af héraðsdómara. Sú niðurstaða var kærð til Landsréttar. Landsréttur staðfesti hins vegar úrskurð héraðsdóms.
Nokkrum dögum síðar var viðbúnaðarstig lögreglu vegna hryðjuverka hækkað úr A í B. Viðbúnaðarstigin eru fimm en stig B vísar til aukins viðbúnaðar vegna hryðjuverkaógnar.
Þess má geta að þetta viðbúnaðarstig er enn í gildi rúmu ári síðar.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við mbl.is í september að hættustigið yrði hugsanlega endurmetið ef sakborningarnir yrðu sakfelldir.
Í ákærunni sem var gefin út í desember árið 2022 var Sindri ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka og stórfelld brot gegn vopnalöggjöf. Ísidór ákærður fyrir hlutdeild í tilraun til hryðjuverka og stórfelld brot gegn vopnalöggjöf.
Lögmenn sögðu ákæruna vera óskýra er kæmi að hryðjuverkaliðnum.
Málið var þingfest í janúar árið 2023 og neituðu mennirnir báðir sök er kom að hryðjuverkahluta ákærunnar.
Við þingfestingu tilkynnti dómari að hann myndi taka til skoðunar hvort vísa ætti ákæruliðum er sneru að skipulagi hryðjuverka frá. Í kjölfarið fór fram þinghald þar sem það var rætt og í febrúar ákvað dómari að Sindri og Ísidór yrðu ekki ákærðir fyrir undirbúning hryðjuverka.
Héraðssaksóknari kærði úrskúrð héraðsdóms til Landsréttar. Landsréttur staðfesti hins vegar úrskurðinn.
Í júní gaf héraðssaksóknari síðan út nýja ákæru á hendur Sindra og Ísidóri. Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, sagði þá í samtali við mbl.is að nýja ákæran hafi verið unnin í samræmi við leiðbeiningar frá Landsrétti.
Aftur neituðu mennirnir tveir sök og aftur var lögð fram frávísunarkrafa í málinu vegna óskýrleika ákærunnar. Í október vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur síðan ákærunni aftur frá.
Í október felldi Landsréttur hins vegar úr gildi úrskurð héraðsdóms og skipaði dómstólnum að taka ákæruna til efnismeðferðar.
Í lok október krafðist Karl Ingi að Daði Kristjánsson, dómari í málinu, myndi víkja vegna ummæla hans í úrskurðinum þar sem málinu var vísað frá. Í úrskurðinum gaf Daði til kynna að saksóknari hefði átt að fella málið niður þar sem það væri ekki nægilegt eða líklegt til sakfellingar.
Málið tafðist því enn frekar en Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu í nóvember að Daði væri vanhæfur.
Í lok nóvember komst Héraðsdómur Reykjavíkur síðan að þeirri niðurstöðu að þrír dómarar muni skipa nýja dóminn.
Núgildandi ákæra er tólf blaðsíðna löng og er því lýst í 64 liðum hvernig mennirnir tveir ætluðu sér að fremja hryðjuverk.
Sindri er talinn hafa sýnt ásetning til hryðjuverka „ótvírætt í verki“ á tímabilinu maí til september 2022. Hann hafi framleitt og aflað sér skotvopna, skotfæra og íhluta í skotvopn og sótt, móttekið og tileinkað sér efni um þekkta aðila sem framið hafa hryðjuverk, aðferða- og hugmyndafræði þeirra.
Hann er sagður hafa ætlað að framkvæma hryðjuverk á Íslandi með skotvopnum og/eða sprengingum dulbúinn sem lögreglumaður.
Ísidór er sagður hafa veitt Sindra liðsinni í orði og verki í broti hans með því að taka þátt í og aðstoða Sindra við framleiðslu skotvopna. Þá á hann að hafa vitað um áætlanir Sindra um að fremja hryðjuverk og hvatt hann til þess. Ísidór á að hafa aðstoðað Sindra við öflun lögreglubúnaðar og fatnaðar, miðlað til hans upplýsingum um þekkta hryðjuverkamenn auk upplýsinga um sprengju- og drónagerð.
Ekki verður nánar farið út í efnistök ákærunnar hér, en ítarleg umfjöllun verður um aðalmeðferð hryðjuverkamálsins á mbl.is næstu daga.