Blóðmerar ekki lágar í blóði þrátt fyrir blóðtöku

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert

Fylfullar íslenskar hryssur áttu ekki erfitt með að halda uppi eðlilegum blóðhag þrátt fyrir reglulega blóðtöku, að því er fram kemur í skýrslu um rannsókn Tilraunastöðvarinnar á Keldum sem falið var að rannsaka áhrif blóðtöku á fylfullar merar. Rannsóknin miðaði að því að skoða hvaða áhrif fimm lítra vikuleg blóðsöfnun í allt að 8 skipti hefðu á blóðhag hryssnanna.

Rannsóknin var gerð að beiðni matvælaráðuneytisins þar sem skortur var sagður á ritrýndum heimildum um eðlileg viðmiðunargildi blóðhags í fylfullum hryssum, en úr merunum hafa verið dregnir 5 lítrar blóðs vikulega sem nýtt hefur verið til vinnslu á lyfjavirkum efnum. Hefur blóðtakan sætt gagnrýni, bæði innlendra og erlendra dýraverndarsamtaka. Skort hefur óháðar rannsóknir til að styðjast við mat á velferð hryssnanna sem og forsendur til að meta hvort magn og tíðni blóðlöku sé hæfileg og hvernig tryggja megi heilbrigði og velferð meranna. Spurningin sem rannsóknin beindist m.a. að varðaði m.a. langtímaáhrif blóðtökunnar og hversu vel hryssurnar gætu bætt sér upp vikulega blóðtöku með mótvægisviðbrögðum líkamans.

Vikuleg blóðsýni úr hverri hryssu

Fram kemur í skýrslunni að lægstu meðalgildi í blóði þeirra hryssna sem voru rannsakaðar, hafi verið yfir viðmiðum um blóðleysi. Munur var á blóðhag og mótvægisviðbrögðum gagnvart blóðtapi á milli stóða og á milli landshluta, en 160 hryssur, bæði á Norður- og Suðurlandi sættu rannsókn.
Í rannsókninni voru tekin vikuleg blóðsýni úr hverri hryssu sem safnað var blóði úr í tveimur stóðum frá fyrrgreindum landshlutum og mæld gildi sem gefa mynd af járnbúskap, blóðmyndun og blóðfrumusamsetningu. Til hliðsjónar var samanburðarhópur fylfullra hryssna sem blóð var ekki dregið úr.
Í báðum stóðunum voru lægstu meðalgildi blóðsöfnunartímabilsins yfir viðmiðum um blóðleysi. Lækkaði blóðfrumnahlutfall og blóðrauði mest snemma á rannsóknartímabilinu í stóðinu á Norðurlandi , en hækkaði síðan jafnt og þétt. Í sunnlenska stóðinu var lækkun gildanna sjáanleg fram eftir tímabilinu og hækkaði svo í lokin. Í báðum stóðum náðu stærð og blóðrauðainnihald rauðfrumna hámarki í 5. viku.

Full ástæða til að kanna áhrifaþætti frekar

Engar norðlensku meranna mældust með blóðfrumnahlutfall sem samræmdist miðlungs eða greinilegu blóðleysi en þær voru 13 í stóðinu á Suðurlandi. Í allt greindust 8,6% hryssnanna með miðlungsblóðleysi og 1,2% með greinilegt blóðleysi í einu eða fleiri sýnum. Aðeins ein af þessum hryssum sýndi merki þess að halda ekki í við blóðtapið. Munur á því hve hratt og vel hryssurnar brugðust við blóðtapinu var því nokkur á milli landshluta og ekki eru skýringar á því, en sagt að frekari rannsókna sé þörf til að skýra hann.
Í skýrslunni segir að rannsóknin sýni að full ástæða sé til þess að kanna áhrifaþætti á blóðhag meranna, þ.m.t. áhrif næringar. Mögulega sé þörf á rannsaka sérstaklega styrk og hlutfall snefilefna og annarra þátta sem mikilvægir eru fyrir rauðfrumnamyndun, til þess að búa megi sem best að hryssum í blóðsöfnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert