Ungverjar hrifust af Heimaleiknum

Heimaleikurinn þótti skara framúr á hátíðinni.
Heimaleikurinn þótti skara framúr á hátíðinni. Samsett mynd

Íslenska heimildarmyndin Heimaleikurinn, í leikstjórn Smára Gunnarssonar og Loga Sigursveinssonar, hlaut verðlaun á Budapest International Documentary Festival um helgina á lokaathöfn hátíðarinnar. 

Heimaleikurinn segir frá tilraun Kára Viðarssonar til að uppfylla draum föður síns um að safna í lið heimamanna til að spila langþráðan vígsluleik á fótboltavelli sem faðirinn lét byggja á Hellissandi 25 árum áður. 

Ungverskur spekingur hrósaði myndinni 

Heimaleikurinn hlaut ein aðalverðlaun hátíðarinnar ásamt Four Daughters sem tilnefnd er til Óskarsverðlauna og Seven Winters in Tehran sem vakið hefur athygli víða. 

Í tilkynningu frá höfundum myndarinnar þar sem tilkynnt er um verðlaunin segir að sparkspekingurinn og fyrrum landsliðsmaður Ungverja, Janós Hrutka, hafi farið lofsalegum orðum um myndina. 

„Hann skrifaði grein um myndina til að hvetja landa sína til að fara og sjá hana og skilaði það sér í góðri stemningu á sýningunum og frekari fjölmiðlaumfjöllun og áhuga í Ungverjalandi,“ segir í tilkynningu. 

Smári Gunnarsson og Logi Sigursveinsson eru leikstjórar myndarinnar.
Smári Gunnarsson og Logi Sigursveinsson eru leikstjórar myndarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Ekki fyrstu verðlaunin 

Þá segir að Heimaleikurinn hafi nýlega verið valin inn á Glasgow Film Festival þar sem hún er tilnefnd til áhorfendaverðlauna hátíðarinnar í mars ásamt sjö öðrum myndum og þar á meðal nýjustu myndar Viggo Mortensen. 

Heimaleikurinn hefur áður hlotið áhorfendaverðlaun Nordisk Panorama 2023 og áhorfendaverðlaun heimildamyndahátíðar Skjaldborgar sama ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert