„Ætlum ekki að loka veginum alveg strax“

Víðir Reynisson.
Víðir Reynisson. mbl.is/Óttar

Eitt skarð er á varnargörðunum við Svartsengi og ætla almannavarnir að minnka það í dag, en ekki loka því.

„Við ætlum ekki að loka veginum alveg strax,” segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, og á þar við Grindavíkurveg en skarðið er við veginn.

Vinnuvélar eru komnar á staðinn. Varnargarðarnir eru sex til átta metra háir.

Eins og staðan er núna er hraunflæðið hagstætt og rennur til norðurs. Það er því ekki á leið í átt að varnargörðunum sem stendur.

Vinna hefur staðið yfir við varnargarða við Svartsengi.
Vinna hefur staðið yfir við varnargarða við Svartsengi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við ætlum ekki að loka Grindavíkurveginum nema aðstæður breytast,” heldur Víðir áfram. „Þetta lítur í augnablikinu ágætlega út.”

Spurður kveðst hann ekki vita hve löng vegalengdin er frá hrauninu að varnargörðunum en segir að það sé „þó nokkur spotti”.

Aðstæður í Grindavík í lagi 

Víðir segir viðbragðið við gosinu ganga vel. Tveir bílar voru sendir til Grindavíkur til að skoða aðstæður, m.a. hvort rafmagn hefði farið af bænum, en miðað við fyrstu upplýsingar er allt í lagi þar.

Hann segir ekki líkur á að hraun flæði til Grindavíkur, miðað við nýjustu stöðu.

„Sprungan þarf að opnast talsvert mikið suður til að það gerist á næstunni.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert