Fólk sem á rafmagnsofna og hitablásara, sem ekki verða í notkun, er hvatt til þess að stíga fram og leggja íbúum Suðurnesja lið í formi láns af tækjunum á næstu dögum.
Agnes Ósk Marzellíusardóttir, stofnandi Facebook-hópsins Aðstoð við Grindvíkinga hvatti til þessa í færslu í dag. Ekki hefur staðið á viðbrögðum og margir boðið fram tæki að láni eða jafnvel að gjöf.
Hópurinn var stofnaður er Grindvíkingar neyddust til að yfirgefa heimili sín í nóvember á síðasta ári og gátu Grindvíkingar þar ýmist óskað eftir aðstoð og samlandar þeirra rétt fram hjálparhönd.
„Nú eru það fleiri en Grindvíkingar sem þurfa aðstoð,“ skrifar Agnes við færsluna, en eins og flestum er nú kunnugt flæddi hraun yfir Njarðvíkuræðina í dag en hún sér Suðurnesjum alfarið fyrir heitu vatni.