Gæti reynt á varnargarða við Svartsengi

Ármann Höskuldsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Ármann Höskuldsson, prófessor við Háskóla Íslands. Samsett mynd/Björn Oddsson

Eldgosið sem hófst í morgun norðaustan við Sýlingarfell er sæmilega kröftugt og virðist vera að teygja sig til norðurs. Það er kröftugast um miðbik gossprungunnar og verður kröftugt næstu tvo til þrjá klukkutímana en síðan fer að draga úr því.

Þetta segir Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði.

„Norðurhlutinn er í samfelldum gosstrókum. Þetta fer að eflast þarna norðurfrá en suðurskottið er bara rólegt,” segir hann.

Í mesta lagi fjórir dagar

Ármann segir gosið hefjast á svipaðan hátt og það sem varð í desember og reiknar með því að það standi yfir í mesta lagi fjóra daga, miðað við það sem var komið í kvikuhólfið.

Spurður hvort Grindavík sé í einhverri hættu segir hann hraun geta flætt þangað niður eftir en það sé ólíklegt.

„Það er meira hraun að fara til vesturs núna. Það gæti reynt að varnargarðana í kringum Svartsengi og Bláa lónið,” bætir hann við og segir gosið vera á leiðinlegum stað upp á aðkomu að gera. Líklega sé ekki hægt að komast að því nema með dróna eða þyrlu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert