Heitt vatn gæti komist á nýja lögn á morgun

Streymið frá gosinu hefur verið í vesturátt yfir Grindavíkurveg og …
Streymið frá gosinu hefur verið í vesturátt yfir Grindavíkurveg og hitaveitulögn frá Svartsengi í Njarðvík. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir það skelfilegar fréttir að Njarðvíkuræðin hafi farið í sundur. Hún hefur fylgst grannt með gangi mála í samhæfingarstöð almannavarna fljótlega eftir að það fór að gjósa á Reykjanesskaganum í morgun.

Ráðherrann segir að tekist hafi að klára suðuvinnu og að fergja nýja lögn sem lögð hafði verið frá orkuverinu og að vonir standa til að koma vatni á lögnina á morgun.

„Því miður er þetta versta sviðsmyndin sem hafði teiknast upp. Við höfðum teiknað hana upp á sínum tíma í kringum það ef við myndum missa orkuverið í Svartsengi en í þessu tilviki er Njarðvíkurlögnin farin og heita vatnið er farið af Reykjanesi,“ segir Guðrún við mbl.is í samhæfingarstöð almannavarna.

Hún brýnir fyrir fólki á Suðurnesjum að spara bæði vatn og rafmagn.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór/Hörður Kristleifsson

Sýnir hvað okkar færustu vísindamenn eru góðir

Guðrún segist hafa fengið upplýsingar um að gos væri hafið tveimur mínútum áður en það hófst.

„Ég segi ekki að þessi tíðindi hafi komið mér á óvart og sýnir manni hvað okkar færustu vísindamenn eru góðir. Í síðustu viku spáðu þeir því að líklega myndi gos hefjast á bilinu 5.-9. febrúar og í dag er 8. febrúar. Við áttum því von á þessu en svo er þessi dauðans óvissa hvar kvikan finnur sér farveg.“

Guðrún segir að nú verði bara að sjá hvort kerfið tappi af sér og að kvika hætti að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi. 

„Meðan það gerist ekki þá verðum við líklega í þessum aðstæðum á 4-5 vikna fresti og það mun þá reyna á alla innviði á Reykjanesi og þá sérstaklega íbúana. En við þurfum að læra að lifa í landi náttúruhamfara.“

Hún segir að í morgun hafi flestir verið glaðir með upptökustað gossins en svo hafi komið í ljós meiri hraði á hraunrennslinu og það hafi fundið sér þröngan farveg sem hafi valdið auknum hraða.

Sýndu mikið hugrekki

„Hraun hefur runnið meðfram varnargörðunum norðan við Svartsengi sem er gott en Njarðvíkurlögnin er gömul og við treystum henni ekki til að færa hana niður í jörð. Þess vegna var verið að leggja nýja lögn meðfram henni niður í jörð og það er með hreinum ólíkindum að hugrakkir menn fóru í það í morgun að klára suðuvinnu og að fergja lögnina.“

Guðrún segist ekki hafa átt von á að þeim tækist þetta í kapphlaupi við hraunelfið þegar hún mætti í samhæfingarstöðina í Skógarhlíð í morgun.

„En það tókst og nú er verið að vinna hörðum höndum að því að smíða tækjabúnað til þess að tengja lögnina og við bindum vonir við að það takist seinni partinn á morgun að hleypa vatni inn á nýju lögnina. Ef það tekst þá má segja að örlagadísirnar séu með okkur í liði.“

Flugið getur stöðvast

Skömmu eftir hádegi í dag lýsti ríkislögreglustjóri yfir neyðarstigi almannavarna eftir að Njarðvíkuræðin rofnaði og segir Guðrún að flugumferð á Keflavíkurflugvelli geti raskast.

„Þessi staða sem upp er komin getur valdið truflunum á flugi og það getur jafnvel stöðvast í sólarhring. Það þarf heitt vatn til þess að afísa flugvélaranar og núna er komið talsvert frost. Við búumst því við truflunum á flugi.“

Guðrún segir að ríkisstjórnin hafi verið að vinna ötullega að því að leita lausna fyrir Grindvíkinga og hún væntir þess að á morgun ef allt gengur upp muni fjármála- og efnahagsráðherra leggja fyrir ríkisstjórnina frumvarp um uppgreiðslu á húsum Grindvíkinga. Hún segir að það sé búið að samþykkja styrki til atvinnurekenda og framhald af launastyrkjum og húsnæðisstyrkjum.

„Þetta er gríðarlega flókið og umfangsmikið verkefni og það má segja að þessi mál snerti öll ráðuneytin með einum eða öðrum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert