Hryðjuverkamálið: Félagar með svartan húmor

Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson.
Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sindri Snær Birgisson neitaði því alfarið að hafa undirbúið hryðjuverk hér á landi í skýrslutöku fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Aðalmeðferð í hryðjuverkamálinu svokallaða hófst í dag.

Sindri sagði ákæruna vera galna og lýsti samskiptum sínum við meðákærða, Ísidór Nathansson, sem „fíflaskap“. Þá sagði hann ítrekað að ummæli hans hafi verið tekin úr samhengi. Sindri sagðist aldrei hafa ætlað að meiða einn né neinn.

Saksóknari og verjendur deildu þó nokkrum sinnum um skýrleika í ákærunni, en líkt og þekkt er er þetta önnur ákæran sem héraðssaksóknari leggur fram gegn sakborningunum. Meðal annars var deilt um hvort rifflarnir sem fundust á heimili Sindra, AR-15 og AK-47, væru árásarrifflar, líkt og segir í ákæru, eða veiðirifflar. 

Sindri er 27 ára gamall og er ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka. Sindri er tal­inn hafa sýnt ásetn­ing til hryðju­verka „ótví­rætt í verki“ á tíma­bil­inu maí til sept­em­ber 2022. Hann hafi fram­leitt og aflað sér skot­vopna, skot­færa og íhluta í skot­vopn og sótt, mót­tekið og til­einkað sér efni um þekkta aðila sem framið hafa hryðju­verk, aðferða- og hug­mynda­fræði þeirra.

Hann er sagður hafa ætlað að fram­kvæma hryðju­verk á Íslandi með skot­vopn­um og/​eða spreng­ing­um dul­bú­inn sem lög­reglumaður.

Dómarar í málsins eru þrír og er Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra. Skýrslutaka yfir Sindra stóð yfir í tæplega sex klukkustundir. Skýrslutakan hófst á vopnalagabrotum Sindra sem hann játar að hluta til en sá kafli ákærunnar er í níu liðum.

Sveinn Andri og Sindri Snær.
Sveinn Andri og Sindri Snær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég framleiddi þetta viljandi svo þetta myndi klikka“

Sindri játaði að hafa framleitt fimm stykki af skotvopnum og sagði hann skotvopnin hafa virkað misvel. Hann sagði eina byssuna hafa virkað vel en „hinar vera drasl“. Við þingfestingu játaði Sindri að hafa selt sex skotvopn en í dag sagði hann hið rétta að þau hafi verið fimm. Hann sagðist hafa framleitt vopnin í auðgunarskyni.

Sindri sagði að vopnin hafi klikkað og sprungið í höndunum á honum, sem hann sagði þó ekki hafa verið hættulegt.

Sveinn Andri spurði Sindri hvert vopnin fóru og svaraði Sindri að þau hafi „farið til manna út í bæ“.

„Ég framleiddi þetta viljandi svo þetta myndi klikka“, sagði Sindri um vopnin sem hann framleiddi. Dómari spurði Sindra af hverju hann framleiddi gölluð vopn og sagði Sindri að hann hafi verið að selja vopnin og ekki viljað að kaupendur ættu vopn sem virkuðu vel.

Sveinn Andri bað um í upphafi þinghalds að nokkur skotvopn yrðu sýnd dómþingi er sérfræðingur í skotvopnum mun bera vitni á næstu dögum. Saksóknari sagði að það væri hægt að skoða það.

Fékk greitt í fíkniefnum

Sindri sagði að hann hafi fengið greitt í fíkniefnum fyrir vopnin og að uppsett verð fyrir hvert stykki hafi verið hálf milljón.

Sindri sagði að hluti Ísidórs í skotvopnaframleiðslunni hafi verið lítill en að hann hafi búið til einhverja hluti í vopnin. Hann sagði að Ísidór hafi ekki fengið greitt fyrir vopnin. 

Eftir að Karl Ingi saksóknari fór yfir ýmis samskipti Sindra og Ísidórs um sölu og framleiðslu skotvopna viðurkenndi Sindri að hlutur Ísidórs hafi hins vegar verið umtalsverður.

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá Héraðssaksóknara.
Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá Héraðssaksóknara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Átti græjur til að framleiða skotfæri

Sindri neitaði að hafa framleitt skotfæri og afhent. Hann viðurkenndi þó að hafa selt nokkra kassa af endurnýttum skotfærum með vopnunum sem hann seldi. Sindri hafði þá endurnýtt gamlar patrónur.

Sindri viðurkenndi að hafa átt græjur til að framleiða skotfæri en ekki gert það. „Ég átti fullt af skotfærum og sá því ekki ástæðu til að hlaða þau,“ sagði Sindri.

Breytti olíusíu í hljóðdeyfi

Sindri sagðist hafa keypt olíusíur af Aliexpress og breytt í hljóðdeyfi. „Þetta er ekki einhver alvöru hljóðdeyfir,“ sagði Sindri og bætti við að líklega væri svipuð hljóðdeyfing og að nota kodda yfir byssur.

Meðal þess sem tvímenningarnir eru sakaðir um að hafa framleitt er svokallaður „swift link“, eða hröðunarstykki líkt og Sveinn Andri sagði það heita á íslensku. Stykkið er ætlað til að gera hálfsjálfvirkan riffil í sjálfvirkan en Sindri sagði að það hafi ekki virkað.

„Reyndum ekki einu sinni að fá þetta til að virka,“ sagði Sindri og bætti við að stykkið hafi ekki passað á AR-15 árásarrifill sem faðir hans átti. Sindri sagði að Ísidór hafi framleitt stykkið.

Saksóknari nefndi að stykkið er bannað í Bandaríkjunum og ýmsum Evrópulöndum.

Guðjón vildi selja skammbyssu

Sindri sagði það ekki rétt að hann ætti rifflana sem fundust á heimili hans heldur faðir hans, en Sindri hefur aldrei verið með byssuleyfi. Þess má geta að rifflarnir eru ekki eitt af skotvopnunum sem Sindri og Ísidór þrívíddarprentuðu.

Saksóknari benti á að rifflarnir hafi fundist í svefnherbergi Sindra en hann sagði að þeir hafi verið þar þar sem að pláss hafi verið í svefnherberginu hans.

Í ákæru segir að Sindri hafi keypt rifflana í júní árið 2022 en Sindri sagði að faðir hans hafi keypt þá í maí sama ár. Sindri sagði að hann hafi gefið föður sínum ráð um hvað skyldi kaupa en ekki komið að kaupum á þeim.

Sindri viðurkenndi þó að hafa keypt sér annan sérsveitarriffil á bensínstöð í Grænlandi og síðan selt föður sínum hann.

Þá kom fram að Guðjón, sem má áætla að hafi verið Guðjón Valdimarsson, faðir Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra, hefði boðið Sindra að kaupa Berettu-skammbyssu á einum tímapunkti. Embætti ríkislögreglustjóra sagði sig frá rannsókn málsins í lok september árið 2022 vegna vanhæfis.

Játaði að hafa breytt riffli

Saksóknari benti á að í samantektarskýrslu lögreglu er haft eftir Birgi, föður Sindra, að Sindri ætti vopnin. Sindri ítrekaði hins vegar að það væri ekki rétt og gagnrýndi vinnubrögð lögreglu fyrir að vera óskýr.

Kærasta Sindra sagði í skýrslutöku lögreglu að Sindri ætti 3-4 stór vopn. Hann sagði hana aldrei hafa séð nein vopn og ítrekaði að hann ætti ekki vopnin.

Sindri játaði að hafa breytt AR-15 rifflinum úr handhlaðanum riffli í hálfsjálfvirkan riffil en síðan breytt honum aftur svo hann varð eins skota að beiðni föður hans er hann áttaði sig á því að það væri ólöglegt.

Sindri játaði að hafa notað vopnin án byssuleyfis en neitaði að hafa haft þau í fórum sínum. Hann sagðist alltaf hafa notað þau undir eftirliti föður síns, sem hafði byssuleyfi.

„Flott dót“

Sindri játaði að hafa átt 100 skota magasín (skotgeymi) sem var hægt að setja á AR-15 riffil. Sindri sagði að um „flott dót“ hafi verið að ræða sem hann fékk lánað frá félaga sínum. Hann sagðist aldrei hafa notað skotgeyminn.

Sindri sagði nokkrum sinnum er vopnalagabrotið var rætt að í dag væri hann búinn að missa allan áhuga á skotvopnum.

58 liðir

Eftir rúmlega tvo tíma var loks farið í þann hluta ákærunnar sem snýst að undirbúningi hryðjuverka. Hann er 58 liðir og var farið yfir hvern lið fyrir sig í skýrslutökunni. Í fyrri hluta þessara liða má finna samskipti tvímenninganna á dulkóðaða forritinu Signal.

„Ég neita þessu bara alfarið. Þetta er galið,“ sagði Sindri er dómari spurði hann um ákæruna.

Líkt og sagði í inngangi sagði Sindri ítrekað að samskiptin hafi verið grín og „fíflaskapur“. Sveinn Andri verjandi hans sagði ákæru saksóknara klippa til ummælin svo að ekki sæist að um grín á milli vina væri að ræða.

Áhugi á mannlegri hegðun

Spurður út í ummæli Ísidórs þar sem hann sagðist ætla að drepa „kommalufsuna“ og átti þar við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, sagði Sindri að um „fíflalæti“ hafi verið að ræða.

Spurður út í myndskeið sem Ísidór sendi Sindra af Brenton Tarrant hryðjuverkamanni á Nýja-Sjálandi fremja hryðjuverk sagði Sindri að um væri að ræða „viðbjóðslegt myndband“. Hann sagði að þeir hafi ekki rætt myndskeiðið neitt sérstaklega og að Ísidór hafi sent honum það óumbeðið.

Þremur dögum síðar bað Sindri um hlekk frá Ísidór að myndskeiði af árás Payton Gendron og útskýrði Sindri fyrir dómi að myndskeiðið hafi fengið mikla athygli um allan heim og því vildi hann sjá það.

Karl Ingi benti á að Sindri hafi skoðað skotvopn á svipuðum tíma og hann skoðaði myndskeiðin. Sindri sagði engin tengsl vera þar á milli og að það sé galið að tengja myndskeiðin og skotvopnin saman.

Sindri sagðist hafa áhuga á mannlegri hegðun og því viljað sjá myndskeiðin. Hann hafi skoðað þau einu sinni.

Einar Oddur, verjandi Ísidórs, spurði hvort að greina mætti ákveðið þema í þessum samskiptamáta þeirra félaga og svaraði Sindri játandi. Hann sagði að um ákveðna satíru væri að ræða. Síðar sagði Sindri þá hafa svartan húmor.

Sindri Snær Birgisson og verjandi Ísidórs.
Sindri Snær Birgisson og verjandi Ísidórs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sækist ekki í félagsskap samkynhneigðra

„Ég elska óreiðu – Fólk má deyja mín vegna – Varla til sú manneskja sem hefur sýnt mér kærleika nokkurn tímann um ævina – Almennt er fólk viðbjóður – Plága – Djöfull tek ég marga með mér þegar að því kemur,“ voru skilaboð sem Sindri sendi á frænda sinn.

Sindri sagði að þessi ummæli hafi verið tekin úr samhengi og að ummælin snerust um barnaníðinga. Hann sagðist hafa upplifað mikinn kærleika um ævina og að hann hafi átt góða fjölskyldu. Hann sagði ummælin bara vera rugl og innantóm orð. Um grín hafi verið að ræða.

Er kom að ummælum um að drepa fólk í Gleðigöngunni sagðist Sindri aldrei hafa ætlað að drepa neinn.

„Finnst þér fólk vera ógeð?...“ spurði Karl Ingi saksóknari. „Fólk almennt? Nei, alls ekki,“ svaraði Sindri.

Spurður út í afstöðu sína gagnvart samkynhneigðum sagði Sindri að fólk geri það sem það vilji og að það sé frábært að fólk komi út úr skápnum. Hann sagðist ekki bera neina andúð í garð samkynhneigðra. Hann sagðist þó ekki sækjast eftir félagsskap samkynhneigðra.

Breivik ekki foringi Sindra

Sindri sendi uppskrift að rícin-eitri til Ísidórs og sagðist Sindri „kannski bara vera fróðleiksfús“. Hann hafi séð álíka eitur í ýmsum sjónvarpsþáttum og verið frovitin um hvernig það sé búið til. Hann sagðist aldrei hafa aflað hráefna til gerð eitursins.

Í ákærunni er bent á að orðrétt sé að finna uppskriftina úr riti Anders Behring Breivik. Sindri sagðist aldrei hafa lesið ritið og að um væri að ræða tilviljun. Síðar viðurkenndi hann þó að hafa vistað ritið á tölvu sína og opnað það ellefu sinnum.

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik.
Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik. AFP

Ísidór sendi myndskeið á Sindra með Breivik þar sem Sindri svarar „Mein fuhrer“ eða „minn foringi“ á íslensku. Sindri sagði þetta hafa verið satíru og að hann hafi verið að vitna í þekkt slagorð nasista í síðari heimstyrjöldinni, ekki eigin afstöðu.

Fullur um verslunarmannahelgina

„Ég er á grensunni að fremja fjöldamorð bara núna,“ eru skilaboð sem Sindri sendi Ísidór um verslunarmannahelgina árið 2022.

Sindri sagðist hafa verið búinn að drekka í tvo sólarhringa er hann sendi skilaboðin og að engin meining hafi verið á bakvið þau.

Sveinn Andri mótmælti

Karl Ingi saksóknari benti aftur á að á sama tíma og þeir félagar hafi verið að framleiða og selja skotvopn hafi þeir verið að „grínast“ með að gera árás. „Já,“ var svar Sindra.

Spurður út í ummæli þar sem Sindri sagði að hann þyrfti bara þrjá mánuði til að fremja hryðjuverk sagði Sindri það bara vera „fabúleringar“.

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sveinn Andri mótmælti og gagnrýndi harðlega að ákæran hafi verið klippt til svo að ekki væri skýrt að sakborningarnir væru að grínast. Hann sagði að Sindri hafi svarað spurningunum.

Dómarar þurftu að stíga inn í og biðja hann um að leyfa saksóknara að spyrja. Að lokum voru dómarar þó sammála um að Karl Ingi saksóknari væri ítrekað að spyrja sömu spurningar.

„Segi margt og meina ekkert með því“

Ummæli Sindra um að drepa Björn Leví, Smára Mccarthy og Helga Hrafn Gunnarsson eiga einnig að hafa verið grín.

Sveinn Andri benti á að Sindri hafi sagt í lögregluskýrslu að hann væri ekki á móti útlendingum en að senda ætti útlenda afbrotamenn úr landi. Sveinn Andri benti á þetta í sambandi við ummæli Sindra um að það þyrfti að „hreinsa smá“ eftir sakamál þar sem erlendir ríkisborgarar komu að.

„Ég segi margt og meina ekkert með því,“ sagði Sindri á einum tímapunkti í skýrslutökunni.

Á góðan vin sem er gyðingur

Sindri sagði að hann hafi spurst fyrir um hvenær árshátíð lögreglu væri eftir að honum var synjað skotvopnaleyfi. Aftur sagði hann að um stutt grín væri að ræða.

„Einn vörubíll myndi taka lágmarki 100,“ sagði í einum skilaboðum Sindra. Hann sagði það vera „fabúleringar“ og kaldhæðni og að enginn merking væri að baki skilaboðanna.

Karl Ingi saksóknari spurði Sindra á einum tímapunkti hver afstaða hans væri til gyðinga. Sindri sagði þá að einn góður vinur hans væri gyðingur. „Ég ber engan kala til neinna trúarbragða.“

Ekki tileinkað sér hugmyndir fjöldamorðingja

Næst var rætt um hluta ákærunnar þar sem Sindri er sakaður um að sækja, móttaka og tileinka sér efni um þekkta einstaklinga sem framið hafa hryðjuverk. Þar er meðal annars minnst á efni fjöldamorðingjanna; Brenton Harris Tarrant, Anders Behring Breivik, Payton Gendron og fleiri.

Hann sagði enga ástæðu fyrir því að hann hafi hlaðið niður, vistað og geymt efnið. Þá nefndi hann nokkrum sinnum að Ísidór hafi sent honum efnið.

Sindri sagðist ekki hafa tileinkað sér hatur Tarrant á múslimum. Þá sagðist hann hafa viljað vita hvað væri „í gangi á hausnum“ á Tarrant þegar hann aflaði sér upplýsinga um hann á netinu. Sindri sagðist einungis hafa verið forvitinn.

Brenton Tarrant.
Brenton Tarrant. AFP

Sveinn Andri spurði Sindra hvort að Breivik væri átrúnaðargoðið hans. Sindri svaraði neitandi og sagði að hann hafi aldrei tileinkað sér neitt er kemur að Breivik.

Sama var að segja um fjöldamorðingjann Payton Gendron. Sindri sagðist ekki hafa tileinkað sér hugmyndir hans og að hann hefði ekkert á móti svörtu fólki en Gendron myrti tíu manns, þar á meðal svarta.

Ætlaði ekki að búa til sprengju né dróna

Næst var Sindri spurður út í ákæruhluta þar sem hann er sakaður um að hafa orðið sér úti um efni og upplýsingar um sprengju- og drónagerð. Hann neitaði því alfarið. „Það var enginn tilraun gerð til að versla eitt né neitt í neina dróna,“ sagði Sindri.

Sindri sagði það vera flókið að smíða dróna og ekki eitthvað sem hann myndi treysta sér í. „Töluvert flóknara“ en byssusmíði.

Sindri sagði að á þeim tíma þegar hann var að leita að upplýsingum um drónagerð á netinu var stríðið í Úkraínu hafið og drónar því mikið í umræðu.

Dómari spurði Sindra hvort hann hefði áhuga á sprengjugerð og svaraði Sindri neitandi.

Sveinn Andri spurði Sindra þá almennt hvort að samskiptin sem minnst er á í ákærunni endurspegluðu almennt samskipti Sindra og Ísidórs. Sindri svaraði neitandi og sagði þetta einungis sýna lítið brot. Sama megi segja um leit Sindra á netinu.

Ísidór og verjandi hans, Einar Oddur Sigurðsson.
Ísidór og verjandi hans, Einar Oddur Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki á móti Hinsegin dögum

Þá var spurt út í ákæruhluta þar sem Sindri er sakaður um að skoða og kynna sér efni á netinu sem tengist mögulegum árásarþolum, meðal annars hinsegin fólki, múslimum og lögreglunni.

Í ákærunni segir að Sindri hafi mælt bil á milli lokana vegna Gleðigöngunnar með það fyrir augum að kanna hvort hægt væri að aka stóru ökutæki þar í gegn. „Það er bara ekki rétt,“ sagði Sindri um þá ásökun. Hann sagðist ekki hafa verið í miðbænum þegar Gleðigangan fór fram árið 2022.

Spurður sagði Sindri að Hinsegin dagar trufli hann ekki.

„Kínverskt dótavesti“

Í síðasta hluta ákærunnar er Sindri sakaður um reyna að verða sér út um lögreglubúnað og lögreglufatnað.

Hann viðurkenndi að hafa átt „kínverskt dótavesti“ sem var varnarvesti. Annars átti hann engann annan búnað. „Eina sem ég gerði var að skoða þetta á netinu.“

„Ég skoða ýmislegt,“ sagði Sindri spurður afhverju hann skoðaði á netinu lögreglubúnað.

Sindri viðurkenndi að hafa tekið mynd af skóbúnaði lögreglumanns í miðbænum í ágúst árið 2022. Sagði hann að um flotta skó hafi verið að ræða og í kjölfarið hafi hann keypt sér gönguskó.

Sindri sagði að ekkert af búnaðinum sem hann skoðaði hafi verið ólöglegur.

Þá sagðist hann lesa efni um skotheldi vesti sér til dægrastyttingar.

Síðasta eina og hálfa árið „ömurlegt“

Að lokum var Sindri spurður af Sveini Andra hvort hann og Ísidór höfðu notast við Signal til þess að leyna samskiptum sínum sérstaklega og svaraði Sindri því neitandi. Hann sagði að eflaust væru til betri forrit til þess.

Þá spurði Sveinn Andri hvort áföll í æsku hans, sem liggur fyrir í málsgögnum að hann hefði orðið fyrir, hafi mótað hann í dag. Sindri svaraði því neitandi.

Spurður um áhugamál Sindra nefndi hann bíla, tölvur og útivist. Þá sagðist hann alltaf hafa haft mikinn áhuga á því að taka hluti í sundur og setja þá saman.

Sveinn Andri spurði Sindra út í pólitískar skoðanir sínar og sagðist hann hafa frjálslyndar skoðanir. Þá sagðist hann ekki hafa öfgakenndar skoðanir.

Sindri sagði að síðasta eina og hálfa ár hafi verið „ömurlegt“. Hann hefur verið atvinnulaus en er nú í námi. Hann á kærustu sem er sjúkraþjálfari í Svíþjóð en þau hafa verið saman síðan áður en málið kom upp. Sindri sagðist hafa glímt við mikið þunglyndi á tíma og hitt sálfræðing vegna þess. Hann sagðist þó ekki vera reiður út í neinn.

Greint verður frá skýrslutöku yfir Ísidór, sem er að hefjast, í kvöld á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka