Hvetja íbúa á Suðurnesjum til að lækka í hitakerfum

Hraun flæðir yfir Grindavíkurveg.
Hraun flæðir yfir Grindavíkurveg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hraunflæðið úr eldgosinu sem hófst í morgun rennur nú í átt að stofnlögn sem flytur heitt vatn frá Svartsengi til Fitja í Reykjanesbæ.

Íbúar og fyrirtæki á Suðurnesjum eru hvött til að lækka í hitakerfum í húsum og nota ekki heitt vatn til baða.

„Fari hraunflæði yfir lögnina er útlit fyrir að sú sviðsmynd raungerist að ekkert heitt vatn frá Svartsengi með þeim afleiðingum að heitavatnslaust verður í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Grindavík og Vogum. Eins og hraðinn er á hraunflæðinu núna gæti það gerst á næstu klukkustundum,” segir í tilkynningu frá HS Veitum.

Til að bregðast við slíkum atburði sem þessum hefur verið unnið að lagningu nýrrar heitavatnslagnar í jörðu á þessu svæði. 

Búið er að leggja um 500 metra langan kafla þar sem ætlunin er að tengja ef gamla lögnin eyðileggst. Það getur aftur á móti tekið einhverja daga að koma nýju lögninni í gagnið.   

Ekki nota heitt vatn til baða

„Búið að fylla á heitavatnstankana á Fitjum en til þess að heitavatnsbirgðirnar endist sem lengst til að halda hita á húsunum á þessu svæði biðjum við íbúa og atvinnulíf að lækka í hitakerfum í húsum og vera ekki að nota heitt vatn til baða í sturtu, baðkörum eða heitum pottum. Nú þegar er búið að skerða afhendingu á heitu vatni til stórnotenda,” segir jafnframt í tilkynningunni.

„Einnig er nú viðbúið að gripið verði til rafkyndingar sem rafdreifikerfi okkar er ekki hannað fyrir. Er biðlað til húseigenda að bíða með að hefja rafkyndingu í lengstu lög.“

Tekið er fram að reyna muni á samtakamátt íbúa, ef til þess komi, að hámarka rafkyndingu við 2,5 kW á hverja íbúð og fara á sama tíma í raforkusparandi aðgerðir.

Fram kemur að hættan af of miklu álagi á rafdreifikerfið, jafnvel frá einni íbúð sé sú að öll gatan eða jafnvel allt kerfið slái út með tilheyrandi hættu á bilunum í jarðstrengjum eða dreifistöðvum. Það gæti tekið langan tíma að laga.

Ábendingar til íbúa frá HS Veitum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert