Í forgangi að loka skörðum í varnargörðum

Vinna við varnargarða nálægt Svartsengi og Bláa lóninu fyrir um …
Vinna við varnargarða nálægt Svartsengi og Bláa lóninu fyrir um tveimur vikum síðan. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er forgangsverkefni að loka þeim skörðum sem eru á varnargörðunum við Svartsengi vegna eldgossins sem hófst í morgun.

Þetta segir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku, og bætir við að verkefnið sé á könnu almannavarna.

„Menn eru bara að vinna í kapphlaupi við tímann.”

Frá flugi Gæslunnar yfir gosstöðvarnar í morgun.
Frá flugi Gæslunnar yfir gosstöðvarnar í morgun. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Vinna við Njarðvíkuræðina

HS Orka er einnig að vinna við Njarðvíkuræðina, sem er heitavatnslögn sem nær frá Svartsengi til Reykjanesbæjar. Hún hefur verið ofanjarðar en vinna hefur staðið yfir síðustu vikur við að setja hana í jörðu á rúmlega kílómetralöngum kafla.

„Þeirri vinnu er ekki lokið. Við erum að leggja allt kapp á það að verja það framkvæmdasvæði og lögnina um leið með hliðjón af þessu hraunflæði sem okkur sýnist að stefni í átt að æðinni og görðunum,” segir Birna.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurð segir hún að engir starfsmenn HS Orku hafi verið að störfum í Svartsengi þegar eldgosið hófst en að starfsfólk fyrirtækisins muni vinna við Njarðvíkuræðina í dag. Sú framkvæmd er einnig á forræði almannavarna.

Birna kveðst ekki geta sagt til um hvort Njarðvíkuræðin sem er ofanjarðar er í hættu en ítrekar að forgangsverkefni sé að verja hana.

Frá flugi Gæslunnar yfir gosstöðvarnar í morgun.
Frá flugi Gæslunnar yfir gosstöðvarnar í morgun. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Fundur hjá neyðarstjórn HS Veitna

Fundur hófst hjá neyðarstjórn HS Veitna í morgun. Að sögn Sigrúnar Ingu Ævarsdóttur, upplýsingafulltrúa fyrirtæksins, er verið að fara yfir hlutina, hvar eldgosið er að koma upp og hvort það gæti haft áhrif á innviði fyrirtækisins.

„Þetta er sambærilegt og önnur gos. Í hvert skipti sem það byrjar að gjósa höfum við áhyggjur af mögulegum áhrifum af því,” segir Sigrún Inga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert