Vinna við að minnka skarð í varnargörðum við Svartsengi í nágrenni Grindavíkurvegar er ekki hafin.
Arnar Smári Þorvarðarson, byggingatæknifræðingur hjá Verkís, segir menn fylgjast með hrauntungunni frá eldgosinu og eru allir í viðbragðsstöðu ef tungan rennur í átt að görðunum.
Fjórar mjög stórar ýtur eru til taks ásamt stórum beltagröfum.
Einnig eru menn í viðbragðsstöðu vegna Njarðvíkurlagnarinnar, sem er heitavatnslögn sem nær frá Svartsengi til Reykjanesbæjar.
Vinna stendur yfir við að setja nýja lögn í jörðina en hin lögnin sem núna er notuð er ofanjarðar.
Hugsanlegt er að bráðabirgðagarðar verði reistir ef þörf krefur, að sögn Arnars Smára.