Íbúafjöldi Íslands ofmetinn um 14.000 manns

Hingað til hafa tölur um íbúafjölda á landinu verið byggðar …
Hingað til hafa tölur um íbúafjölda á landinu verið byggðar á skráningu lögheimils í þjóðskrá. Þær tölur benda ranglega til þess að íbúar landsins verði að líkindum 400 þúsund talsins í febrúar 2024. mbl.is/Árni Sæberg

Hagvöxtur á mann var meiri á síðastliðnum árum en opinberar hagtölur benda til. Þá er verðmætasköpun á mann orðin hin sama og fyrir faraldur þvert á niðurstöður opinberra hagtalna sem benda til þess að enn sé nokkuð til lands í þeim efnum.

Þetta eru meðal afleiðinga nýs mat á íbúafjölda hér á landi þar sem í ljós kemur að íbúar eru talsvert færri en opinberar hagtölur hafa bent til, að því er fjármálaráðuneytið greinir frá. 

Ef gert er ráð fyrir að skekkjan hafi vaxið samhliða fjölgun erlendra ríkisborgara metur ráðuneytið að ofmat íbúafjöldans hér á landi sé nú um 14 þúsund.

Fram kemur, að Hagstofa Íslands hafi unnið að endurbættri aðferð við mat á íbúafjölda á Íslandi í kjölfar manntals Hagstofunnar frá 1. janúar 2021 sem sýndi að fjöldi landsmanna hefði verið ofmetinn um 10 þúsund manns.

Hagstofan stefnir á að gefa út leiðréttar upplýsingar um mannfjölda 1. janúar 2024, þann 21. mars næstkomandi, og uppfæra samhliða tölur allt frá árinu 2011.

Ein mikilvægasta hagstærð efnahagslífsins

„Íbúafjöldi er ein mikilvægasta hagstærð efnahagslífsins og ýmsar hagstærðir gjarnan settar í samhengi við íbúafjölda. Breytt aðferðafræði við mat á íbúafjölda er til þess fallin að bæta gæði ýmissa hagstærða, bæta samtímamat á hagþróun og stuðla að betri ákvörðunartöku í efnahagsmálum og opinberum fjármálum.

Graf/Stjórnarráðið

Hingað til hafa tölur um íbúafjölda á landinu verið byggðar á skráningu lögheimils í þjóðskrá. Þær tölur benda ranglega til þess að íbúar landsins verði að líkindum 400 þúsund talsins í febrúar 2024. Endurbætt aðferð Hagstofu við mat á íbúafjölda byggist á því að búseta einstaklinga sé metin út frá breiðari grunni opinberra skráa. Þannig má ætla að í nýju mati Hagstofunnar verði íbúafjöldinn talsvert lægri en nú er talið,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. 

Þá kemur fram, að ástæða ofmats Þjóðskrár á íbúafjölda megi rekja til þess að einstaklingar upplýsa stofnunina síður um það þegar þeir flytji úr landi en þegar þeir flytji til landsins.

Endurbætt aðferð ætlað að leiðrétta ofmat

„Einstaklingar hafa ríkan hvata til að skrá sig inn í landið, fá kennitölu og þar með ýmsa þjónustu, eins og að opna bankareikning og skrá lögheimili. Slíkir hvatar eru ekki til staðar þegar einstaklingar flytja úr landi. Af því leiðir að skráður íbúafjöldi er hærri en íbúafjöldi landsins. Endurbætt aðferð Hagstofunnar við mat á íbúafjölda miðar að því að leiðrétta framangreint ofmat með því að draga frá þann fjölda einstaklinga sem er sannarlega brottfluttur,“ segir ráðuneytið. 

Enn fremur segir, að samkvæmt fréttatilkynningu Hagstofunnar var ofmatið um 10 þúsund manns þann 1. janúar 2021.

„Ef gert er ráð fyrir að skekkjan hafi vaxið samhliða fjölgun erlendra ríkisborgara metur ráðuneytið að ofmat íbúafjöldans hér á landi sé nú um 14 þúsund. Slíkt hefur óumflýjanlega markverð áhrif á mat á stöðu fasteignamarkaðar, svo eitthvað sé nefnt. Myndin að neðan dregur fram að fjöldi íbúa á hverja íbúð er nokkurn veginn sá sami og árið 2011, sé miðað við áætlun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á ofmati íbúafjöldans. Íbúum hefur á hinn bóginn fjölgað markvert hraðar, um tæp 4%, ef miðað er við opinberar mannfjöldatölur.“

Hefur áhrif á mat á þróun efnahagsmála

Tekið er fram að leiðréttar mannfjöldatölur hafi áhrif á mat á þróun efnahagsmála. Til að mynda leiðii ofmat á mannfjölda til vanmats á landsframleiðslu á mann, en mælikvarðinn er gjarnan notaður til að meta efnahagslega frammistöðu og bera saman lífskjör milli landa.

Myndin sýnir þróun verðmætasköpunar á mann á föstu verðlagi. Bláa …
Myndin sýnir þróun verðmætasköpunar á mann á föstu verðlagi. Bláa línan sýnir þróun miðað við birtar (ofmetnar) tölur og rauða línan miðað við leiðréttar íbúatölur þar sem gert er ráð fyrir að skekkjan sé háð fjölgun erlendra ríkisborgara. Myndin dregur fram að verðmætasköpun á mann hefur þegar náð sömu hæðum og fyrir heimsfaraldur, en upp á það vantar töluvert samkvæmt opinberum hagtölum. Graf/Stjórnarráðið

„Miðað við birtar mannfjöldatölur var landsframleiðsla á mann 7,5 milljónir króna árið 2023 og þar með lægri en árið 2019. Miðað við framangreindar forsendur um ofmat íbúafjölda virðast lífskjör hafa náð fyrri hæðum árið 2023 þegar landsframleiðsla á mann nam 7,7 millj. kr. Þá má ætla að hagvöxtur á mann 2023 hafi verið 0,6% miðað við birtar mannfjöldatölur en var í raun 1,1% miðað við ofangreindar forsendur um ofmat á íbúafjölda,“ segir ráðuneytið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert