Lýsa yfir neyðarstigi

Lögreglan á vettvangi við gosið í dag.
Lögreglan á vettvangi við gosið í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna eftir að Njarðvíkuræðin rofnaði, en hún sér Suðurnesjum fyrir heitu vatni frá Svartsengisvirkjun.

Í tilkynningu biðja almannavarnir almenning á Reykjanesskaga að spara heitt vatn og rafmagn. Það sé mjög mikilvægt og öllu máli skipti að íbúar fylgi þeim leiðbeiningum.

„Nú er mikilvægt að íbúar og fyrirtæki á Suðurnesjum spari allt rafmagn og heitt vatn,“ segir í tilkynningunni.

Kort/mbl.is

Aðeins einn rafmagnsofn á hverja eign

„Miðlunartankar geyma heitt vatn á svæðinu og nú þegar leiðslan er farin er það eina vatnið sem er eftir á svæðinu. Almannavarnir ítreka því mikilvægi þess að íbúar og fyrirtæki spari vatnið. Í markvissum sparnaði endast miðlunartankar væntanlega í 6 til 12 klukkustundir. Miðað við hefðbundna daglega notkun endast tankarnir í 3 til 6 klukkustundir.“

Tekið er fram að íbúar geti notast við rafmagnsofna.

Þó er ítrekað að hver eign megi aðeins notast við einn rafmagnsofn.

„Rafkerfið þolir ekki meiri notkun. Ef öll setja ofna í gang í einu getur kerfið slegið út. Því er mikilvægt að íbúar fylgi fyrirmælum og noti aðeins einn rafmagnsofn til kyndingar.“

Tafarlausar aðgerðir

Í skilgreiningu almannavarna er neyðarstig sagt einkennast af atburði sem valdið hafi slysum á fólki og/eða tjóni á mannvirkjum.

„Verkefni á þessu stigi einkennast af tafarlausum aðgerðum til lífsbjargandi aðstoðar og viðleitni til að afstýra fleiri slysum og varna frekara tjóni.“

Um neyðarstig sé að ræða, dæmi:

  1. Þegar viðhafa þarf tafarlaus viðbrögð vegna fólks sem óttast er um.
  2. Þegar ítrekaðar tilraunir til að hafa samband við skip, loftfar eða fólk hafa reynst árangurslausar og óttast er að viðkomandi sé í neyð.
  3. Þegar staðfestar upplýsingar hafa borist um að skip, loftfar eða menn séu í neyð eða yfirvofandi hættu og þarfnist tafarlausrar aðstoðar.
  4. Þegar slys eða hamfarir hafa orðið eða þegar heilbrigðisöryggi fólks er ógnað svo sem vegna farsótta.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert