Rafmagnsofnar hafa selst upp í öllum byggingavöruverslunum Reykjanesbæjar. Þær upplýsingar hafa fengist frá Húsasmiðjunni, Múrbúðinni og BYKO.
Mikil aðsókn varð í slíka ofna í morgun en svo fór að Njarðvíkuræðin, sem sér Suðurnesjum fyrir heitu vatni úr Svartsengi, fór undir hraun og rofnaði í hádeginu, eins og mbl.is greindi fyrst frá.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is er unnið að því að flytja ofna úr Reykjavík til sölu í Reykjanesbæ fyrir íbúa þar. Einn viðmælandi mbl.is sem var í Múrbúðinni um eittleytið í dag sagði hvern og einn hafa fengið að kaupa tvo ofna.
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi sökum þess að lögnin rofnaði. Hefur þeim tilmælum verið beint til íbúa að notast aðeins við einn rafmagnsofn á hverja eign.