Redduðu hita og rafmagni fyrir hjúkrunarheimili

Komið var upp varaaflsstövum við hjúkrunarheimilin. Þá útvegaði Heilbrigðisstofnun Suðurnesja …
Komið var upp varaaflsstövum við hjúkrunarheimilin. Þá útvegaði Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 50 ofna auk þess sem hitablásarar eru í hverju herbergi. Samsett mynd

Almannavarnir þurftu að ráðast í talsverðar aðgerðir í dag til þess að útvega hjúkrunarheimilum Hrafnistu á Nesvöllum og Hlévangi í Reykjanesbæ rafmagnsofna, hitablásara og varaafl. 

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, segir að vandamálið hafi komið upp í morgun þegar ljóst var að engin varaaflstöð var á hjúkrunarheimilunum og yfirvofandi heitavatnsskortur. 

Nú rétt fyrir klukkan 22 var Willum á leið til fundar til þess að fara yfir aðgerðir dagsins. Að sögn hans hefur verið komið upp varaaflstöðvum við hjúkrunarheimilin og eins útvegaði Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 50 rafmagnsofna sem nýttir verða til húshitunar. Búið er að koma hitablásurum fyrir í hverju herbergi.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að þessi einka­rekn­u hjúkr­un­ar­heim­il­i hafi ekki tekið til sín til­mæli stjórnvalda frá árinu 2020 um nauðsyn varaafls.

Allt lítur vel út 

„Það þurfti að tryggja varaafl til ofna til að tryggja hita og það á að vera tryggt núna. Eins og er þarf ekki að nota varaaflið og allt lítur vel út.“  

Hann segir að ein sviðsmyndanna sem gert var ráð fyrir hafi verið sú að flytja þyrfti þá sem dvelja á heimilunum annað. Menn hafi hins vegar viljað forðast það í lengstu lög.

Rýmingaráætlun klár 

„Við fórum yfir rýmingaráætlun og hún liggur líka fyrir,“ segir Willum. Í því skyni var rætt við önnur hjúkrunarheimili á Suðurnesjum og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu sem hafa umsjón með öðrum hjúkrunarheimilum á Suðurnesjum. 

„Það er búið að teikna upp plan B ef þurfa þykir,“ segir Willum.

mbl.is/Helgi Bjarnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert