„Stefnir í mjög slæma sviðsmynd“

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, segir hraunrennslið miklu meira en það …
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, segir hraunrennslið miklu meira en það virtist í morgun. Samsett/Hörður Kristleifsson/Eggert Jóhannesson

„Hraunrennslið er meira en okkur sýndist í morgun og hraunið er komið yfir Grindavíkurveginn.“

Þetta segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, við blaðamann mbl.is í samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð.

„Það er verið að ryðja upp neyðarvarnargörðum til þess að verja hitaveitulagnirnar, kalda vatnið og rafmagnið. Miðað við þennan hraunhraða þá eru innan við þrír klukkutímar þar til hraun gæti komið að hitaveituæðinni sem fóðrar öll Suðurnesin,“ segir Víðir.

Víðir segir að staðan sé alvarleg og allt verði gert til að tengja varaleiðir og verja þær lagnir sem eru á svæðinu.

Kortið sýnir stöðu hraunrennslis frá nýja gosinu í átt norður …
Kortið sýnir stöðu hraunrennslis frá nýja gosinu í átt norður fyrir leiðigarðinn við Svartsengi að heitavatns- og raflögnum sem liggja til Njarðvíkur. Kort/mbl.is

Vinna eftir öllum leiðum að lágmarka tjónið

„Þetta er að gerast mjög hratt og það hefur orðið talsverð breyting frá því sáum fyrir tveimur tímum síðan.“

Hefur sviðsmyndin versnað?

„Já þetta stefnir í mjög slæma sviðsmynd. Ein af verri sviðsmyndunum sem við höfum haft í ferlinu er heitavatnsframleiðslunni til Suðurnesja væri ógnað og það er sú staða sem er uppi núna. Það var búið að gera bráðabirgða ráðstafanir til að verja lagnirnar en núna er verið að ryðja upp varnargörðum til að hægja á hraunrennslinu. Það er verið að vinna eftir öllum leiðum til að lágmarka tjónið,“ segir Víðir.

Víðir segir að allt almannakerfið hafi virkað í morgun. „Það hefur allt gengið vel eftir því sem ég best veit og það er mikið viðbragð í gangi. Við erum búnir að bæta í viðbragðið í ljósi þeirra tíðinda sem við erum að horfa á í beinni útsendingu frá drónunum okkar,“ segir Víðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert