Njarðvíkuræðin er farin í sundur

mbl.is/Kristinn Magnússon

Njarðvíkuræðin, lögnin sem sér Suðurnesjum fyrir heitu vatni frá Svartsengi, er farin í sundur. 

Mikil gufa stígur nú upp frá Njarðvíkuræðinni að því er blaðamaður mbl.is á vettvangi greinir frá. 

Skömmu eftir að gufa steig upp reis svartur mökkur upp frá Njarðvíkuræðinni.

Njarðvíkuræðin er stofnlögn HS Veitna sem flytur heitt vatn frá Svartsengi til Fitja í Reykjanesbæ.

Kort/mbl.is

Of snemmt að segja til um áhrifin

„Það er alltof snemmt að segja til um hvaða áhrif þetta mun hafa og hvort það hafi tekist að verja hana að einhverju leyti,” segir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku, um Njarðvíkuræðina. 

Svæði var rýmt skömmu fyrir hádegi. Fram að því höfðu starfsmenn lagt allt kapp á að verja lögnina.

„En svo þurfti að koma til rýmingar vegna gasmengunar á svæðinu,” segir Birna.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðvörun 25 mínútum fyrir eldgos

Hún segir neyðarstjórn HS Orku hafa verið að störfum síðan 25 mínútunum áður en eldgosið hófst þegar boð barst í gegnum viðvörunarbúnað sem settur hafði verið upp í borholum fyrirtækisins.

„Við erum að leggja mat á verkefnið. Öll starfsemi orkuversins er með eðlilegum hætti og stafar engin ógn að verinu sem slíku í augnablikinu,” segir Birna og bætir við að unnið sé samkvæmt viðbragðsáætlunum í samstarfi við almannavarnir og HS Veitur.

Hún segir hraunflæðið í samræmi við þau hraunflæðilíkön sem unnið var eftir.

Íbúar beðnir um að spara heitt vatn

Fari stofnlögnin undir hraun er útlit fyrir að ekkert heitt vatn komi frá Svartsengi með þeim afleiðingum að heitavatnslaust verður í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Grindavík og Vogum.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að mikilvægt sé að allir íbúar og fyrirtæki spari hita og heitt vatn. 

Íbúar eru beðnir um að lækka í hitakerfum í húsum sínum og nota ekki heitt vatn í sturtu, baði eða heitum pottum. Mikilvægt sé að allir leggist á eitt.

Heita vatnið endist í 6-12 klukkustundir

Í nýrri tilkynningu frá almannavörnum segir að miðlunartankar geymi heitt vatn á svæðinu. Þegar leiðslan fer þá er það eina vatnið sem er eftir á svæðinu. 

Í markvissum sparnaði endast miðlunartankar væntanlega í 6 til 12 klukkustundir. Miðað við hefðbundna daglega notkun endast tankarnir í 3 til 6 klukkustundir.

Fyrst steig gufa upp úr Njarðvíkuræðinni. Nú stígur svartur mökkur …
Fyrst steig gufa upp úr Njarðvíkuræðinni. Nú stígur svartur mökkur upp úr henni. Myndin sýnir gufuna. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert