Systir mín fékk flugeldasýningu í afmælisgjöf

Þorvaldur Þórðarson reiknar með því að gosið standi yfir í …
Þorvaldur Þórðarson reiknar með því að gosið standi yfir í um þrjá daga. Samsett mynd

„Systir mín á afmæli í dag. Mér fannst mjög líklegt að það myndi gjósa í dag. Hún fékk smá flugeldasýningu,” segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, um eldgosið sem hófst snemma í morgun.

Þorvaldur spáði þessu einmitt í samtali við mbl.is á þriðjudaginn.

Hann segir gosið vera mjög svipað því sem hófst 18. desember en framleiðnin virðist þó vera eitthvað minni núna.

„Mér sýnist þetta eiginlega vera eftirlíking af því sem gerðist 18. desember. Þetta er eiginlega á besta stað, þannig séð.”

Grindavík ekki í beinni hættu

Að mati Þorvaldar er Grindavík ekki í beinni hættu, nema gosið standi lengur yfir en fyrri gos. Hann telur þó að gosið standi svipað lengi yfir og síðustu gos, hugsanlega í þrjá daga. Því yrði þá lokið um næstu helgi.

Eldgosið sem hófst í morgun.
Eldgosið sem hófst í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gæti reynt á norðurhluta varnargarða

Þorvaldur telur líklegra að það reyni á varnargarðana við Svartsengi heldur en þá sem eru við Grindavík.

„Það þarf töluvert hraunflæði til þess að það fari alla leið niður í Grindavík og þetta er ekki eins aflmikið og 18. desember,” greinir hann frá og segir flæðihraðann frá gossprungunni minni.

Hann tekur þó fram að það gæti farið að reyna á varnargarðana við Svartsengi, líkt og Ármann Höskuldsson sagði í samtali við blaðamann fyrr í morgun.

„Sérstaklega norðanmegin. Það er hugsanlegt. Þá kemur það bara í ljós hversu gagnlegir þeir verða.”

Býst ekki við mikilli mengun

Þorvaldur reiknar ekki með því að almenningur finni fyrir mikilli brennisteinsmengun vegna eldgossins sökum vindáttarinnar.

„Ef það er norðlægt átt er voðalega lítil hætta á mengun í byggðum bólum.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert