Verktakar voru að vinna við varnargarðana við Grindavík er eldgos hófst í morgun. Þeir rýmdu svæðið hratt og örugglega er merki voru um kvikuhlaup og voru að koma sér af svæðinu er eldgosið hófst.
Arnar Smári Þorvarðarson, byggingatæknifræðingur hjá Verkís, segir viðbraðið hafa verið mjög gott og að allir menn og allar vélar séu komnar í var.
„Það er búið að færa öll tæki og alla bíla,“ segir Arnar Smári við mbl.is.
Spurður hvort hann telji að reyna muni á varnargarðana við Svartsengi nú þegar hraun rennur til vesturs segist Arnar ekki vera viss.
„Það veit svo sem enginn, en það rennur til vesturs. Við erum farnir að undirbúa að vera með vélar tilbúnar til að loka skörðum,“ segir Arnar.
Skörðin eru við Grindavíkurveg og reynsla eldgossins 18. desember sýni að um 2-3 klukkustundir taki að þrengja skörðin niður í eina akrein. Efni er á staðnum til að fylla upp í skörð varnargarðanna.
„Það kom ekki til lokunar þá, en við erum með mjög öflug tæki hér á staðnum,“ segir Arnar.