Dregið hefur verulega úr gosóróa en draga fór úr honum upp úr hádegi í gær þegar virkni á gossprungunni minnkaði einnig.
Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofu Íslands en þar segir að tímabundnar hækkanir hafi sést á gosóróa í gærkvöldi og samhliða hafi virkni aukist í gígunum. Í nótt hafi dregið enn frekar úr virkni gossins og kl. 7-8 í morgun hafi verið tvö gosop virk.
„Undanfarnar klukkustundir hefur ekki sést kvikustrókavirkni á vefmyndavélum en ekki er útilokað að enn sé virkni í gígunum,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Bylgjuvíxlmynd sem tekin var rétt fyrir klukkan 15 í gær sýndi að land í Svartsengi, norðvestan við Þorbjörn, seig mest um 10 cm þegar kvika hljóp þaðan í Sundhnúkagígaröðina.
Líkanreikningar byggðir á þessum gögnum sýna að þetta samsvarar því að um 10 milljón rúmmetrar hafi streymt frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi þegar kvika hljóp þaðan og gaus í Sundhnúkagígjaröðina.
„Þótt gosið hafi minnkað verulega er enn of snemmt að fullyrða að því sé að ljúka. Sólahringsvakt Veðurstofunnar heldur áfram að vakta svæðið mjög náið. Uppfært hættumat verður gefið út seinna í dag,“ segir í tilkynningunni.