„Ég var að skola út kerfi, setja á frostlög og dæla í gegnum til að koma í veg fyrir að frjósi í lögnunum,“ segir Jón Bragi Einarsson, pípulagningameistari hjá JBÓ pípulögnum, sem var önnum kafinn við að blása úr snjóbræðslulögn í Innri-Njarðvík í Reykjanesbæ þegar mbl.is kom að máli við hann í dag.
Kveður Jón Bragi annríkið hafa hafist um hádegisbil í gær þegar Njarðvíkuræðin rofnaði. „Við byrjuðum þá á að tæma fótboltavöllinn og þeir eru þar enn strákarnir. Ég fór heim upp úr fimm í nótt en fjórir aðrir voru þá farnir nokkru áður. Svo voru þeir til sex á fótboltavellinum strákarnir og voru mættir þar aftur upp úr tíu í morgun,“ lýsir Jón Bragi sólarhringnum eftir að leiðslan rofnaði.
Fólk hringir enn í fyrirtækið til að fá lausn sinna mála og glumdi sími Jóns Braga oftar en einu sinni meðan á viðtali stóð. „Síminn stoppar ekki og ég hef bara aldrei kynnst öðru eins,“ segir pípulagningameistarinn sem bjóst þó við að um færi að hægjast úr því sem komið væri.
„Við reynum bara að halda áfram en það er orðið frosið í lögnum á mörgum stöðum. Hérna slapp þetta nú til,“ segir Jón Bragi og vísar til verkefnisins sem hann er staddur í á spjallstundu auk þess sem hann nefnir önnur verkefni í höndum samstarfsmanna hans. Sums staðar var orðið of seint að koma í veg fyrir að vatn frysi í lögnum þrátt fyrir að píparahópurinn hefði bókstaflega lagt nótt við dag í björgunarstarfi sínu.
„Þetta getur farið eftir ýmsu, til dæmis hve ofarlega þú ert og hve nálægt sjó. Hérna erum við til dæmis nálægt sjó og engin klakamyndun hér en í efri byggðunum er margt orðið frosið,“ útskýrir Jón Bragi sem getur ekki svarað því hve langur dagurinn í dag verður hjá honum.
„Við verðum bara að sjá til, það er enn verið að hringja inn. Ætli við verðum ekki alla vega til átta-níu, eða tíu kannski. Svo ef heita vatnið kemur aftur á á sunnudaginn förum við aftur af stað, þá verður örugglega komið loft inn á mörg kerfi og þarf að lofttæma og sinna öðru veseni sem kemur upp í hitaveitugrindum,“ segir Jón Bragi Einarsson sem reiknar ekki með miklum rólegheitum hjá JBÓ pípulögnum næstu vikuna.