Andlát: Össur Kristinsson

Össur Kristinsson stoðtækjafræðingur lést á Landspítalanum 6. febrúar síðastliðinn, 80 ára að aldri.

Össur fæddist 5. nóvember 1943 í Reykjavík og ólst upp í Laugarneshverfinu. Foreldrar hans voru Kristinn Ólafsson, tækjamaður frá Kiðafelli í Kjós, og Lilja Össurardóttir Thoroddsen, saumakona frá Örlygshöfn við Patreksfjörð. Systur hans, Ingibjörg og Hrafnhildur, eru látnar.

Össur fæddist með stuttan fót og fékk því snemma áhuga á stoðtækjum og vildi læra fræðin. Fór hann 19 ára til náms í stoðtækjasmíði til Stokkhólms.

Eftir átta ára dvöl í Svíþjóð kom hann heim aftur til Íslands árið 1970 með unga fjölskyldu. Ári síðar stofnaði hann stoðtækjafyrirtækið Össur. Við tók margra ára þróunarvinna og var vendipunktur í rekstri fyrirtækisins þegar Össur fann upp sílikonhulsuna.

Komst fyrirtækið á verulegt skrið um 1990 og margfaldaðist veltan á fáum árum. Össur hf. fór á hlutabréfamarkað hér á landi 1999 og var skráð í dönsku kauphöllina árið 2009. Í dag er sílikonhulsan ráðandi aðferð við gerð gervifóta í heiminum.

Össur var uppfinningamaður í eðli sínu og tók einnig til við hönnun á nýrri tegund af bátsskrokki og kili. Stofnaði hann fyrirtækið Rafnar árið 2005 og um svipað leyti lét hann af störfum hjá Össuri hf. og seldi sína hluti þar. Sneri hann sér alfarið að rekstri Rafnar og var þar viðloðandi starfsemina allt til dauðadags. Össur fékk fjölda viðurkenninga fyrir frumkvöðlastörf sín, m.a. fálkaorðuna árið 2002, auk þess sem hann tók við mörgum viðurkenningum fyrir hönd Össurar hf.

Eiginkona Össurar var Björg Rafnar læknir, f. 1945, d. 2017. Börn þeirra eru Bjarni og Lilja. Barnabörnin eru fimm og langafabörnin þrjú.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert