Bankarnir fjármagna þriðjung kaupa í Grindavík

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra segir áhættu við íbúðarkaup í …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra segir áhættu við íbúðarkaup í Grindavík skiptast á milli ríkis og banka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra segir að þó vissulega séu miklir fjármunir sem fari frá ríkinu til íbúðarkaup í Grindavík beri að taka með  í reikninginn að fjármálastofnanir taki virkan þátt í aðgerðunum og Íslandsbanki, Landsbanki og Arion banki koma að lausn málsins.

Hins vegar hafa lífeyrissjóðir ekkert gefið eftir og hafa til þessa ekki viljað taka þátt í aðgerðunum. Þórdís segir þó að þeim sé velkomið að koma að borðinu.

Eins og fram kom síðdegis í dag var tilkynnt um að fasteignir íbúa í Grindavík verði keyptar. Áætlanir gera ráð fyrir því að aðgerðirnar muni kosta 60 milljarða króna.  Fjármögnun fer fram í gegnum félagið Þórkötlu sem stýrt verður af Náttúrutryggingasjóði sem fer með umsýslu fasteignanna. 

Húsnæðislán færð yfir á félagið 

Samkvæmt upplýsingum frá Kolbrúnu verða kaupin eru í raun fjármögnuð með tvennum hætti. Annars vegar breyta bankarnir húsnæðislánum í bænum í lán á félagið. Ef allir Grindvíkingar ákveða að selja þá yrðu þetta ríflega 20 ma.kr.

Ríkissjóður mun leggja félaginu til bæði lán samhliða láni fjármálafyrirtækjanna og eigið fé. Samtals gæti það numið um 40 ma.kr. Hlutur ríkissjóðs verður annars vegar fjármagnaður með beinum framlögum ríkissjóðs og fjármunum NTÍ, en til skoðunar er hvernig það verði gert með sem bestum hætti.  

Áhættan sú sama og Grindvíkingar stóðu frammi fyrir 

Hvernig skiptist áhættan á milli ríkis og fjármálafyrirtækja?

„Með aðgerðinni gerir ríkissjóður Grindvíkingum kleift að losna undan þeirri áhættu og óvissu sem felst í því að eiga húsnæði í Grindavík við núverandi aðstæður. Þessi áhætta er flutt á fjármálafyrirtæki og ríkissjóðs að mestu í samræmi við veðsetningu íbúðarhúsa í bænum. Fjármálafyrirtækin halda áhættunni af beinum húsnæðislánum sínum í bænum og greiðist lán ríkissjóðs og fjármálafyrirtækjanna eftir því sem tekju koma inn í félagið þegar rekstrarkostnaður hefur verið greiddur. Með þessu samkomulagi við ríkissjóð gerum við þeim hins vegar kleift að gefa eftir persónulegar ábyrgðir íbúa í bænum af þessum lánum. Áhætta ríkissjóðs er svo nærri í samræmi við þá áhættu sem Grindvíkingar stóðu áður frammi fyrir í eigin fé í húsnæði sínu,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Fjármálafyrirtækin fjármagna þriðjung 

Hver verður aðkoma fjármálafyrirtækja að þessu samkomulagi milli ríkis og fjármálafyrirtækja?

„Fjármálafyrirtækin fjármagna með þessu nærri þriðjung uppkaupa húsnæðis í bænum. Þau gefa einnig eftir ábyrgðir einstaklinga á húsnæðislánum sínum sem greidd verða upp af félaginu. Þá verður rekstrarkostnaður félagsins greiddur fyrst, þ.e. áður en greiðslur renna til fjármálafyrirtækja og ríkissjóðs, sem eigenda lánsins,“ segir Þórdís Kolbrún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert