Bjóðast til að kaupa íbúðarhúsnæði í Grindavík

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkissjóður mun bjóðast til að kaupa íbúðarhúsnæði í eigu einstaklinga í Grindavík og taka yfir þau íbúðalán sem á því hvíla.

Umfang aðgerðarinnar er metið allt að 61 milljarði króna. Frumvarp þessa efnis var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í dag og hefur verið birt í samráðsgátt. 

Þetta er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem miða að því að skapa forsendur fyrir öruggri framtíð fyrir Grindvíkinga og kynntar voru 26. janúar síðastliðinn.

Tilkynning þess efnis var send út nú síðdegis.

Verði afgreitt sem lög í næstu viku

Ríkisstjórnin hefur unnið málið með samráðshópi allra þingflokka og kynnt það fyrir bæjarstjórn Grindavíkur. Stefnt er að því að frumvarpið verði afgreitt sem lög frá Alþingi í næstu viku.

Til þess að framkvæma aðgerðina mun ríkið stofna og fjármagna sérstakt félag, Fasteignafélagið Þórkötlu. Það mun hafa það hlutverk að kaupa fasteignirnar og bera ábyrgð á rekstri þeirra fyrir hönd ríkissjóðs.

Félagið mun bera allan umsýslukostnað vegna kaupa á fasteignunum. Gert er ráð fyrir að félagið eigi tilkall til mögulegra bóta úr Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ) og beri mögulegan kostnað við niðurrif komi til þess.

95% af brunabótamati

Frumvarpið gerir ráð fyrir að fasteignirnar verði keyptar á verði sem nemur 95% af brunabótamati að frádregnum veðskuldum.

Kaupverðið byggir á samsvörun við bótagreiðslur úr Náttúruhamfaratryggingu Íslands en ljóst er að mikil óvissa er um framtíð íbúðarhúsnæðisins, t.d. möguleg förgun.

Fjármögnun félagsins verður með tvenns konar hætti. Í fyrsta lagi, með láni lánveitenda í Grindavík og ríkissjóðs. Þannig mæta lánveitendur þeirri óvissu sem er uppi um virði eigna á svæðinu. Í öðru lagi, með eiginfjárframlagi frá ríkissjóði. Enn er gert ráð fyrir að hluti af framlagi ríkissjóðs sé fjármagnaður með eignum NTÍ.

Opið fyrir athugasemdir um helgina

Til að gefa Grindvíkingum tækifæri til að kynna sér efni frumvarpsins og koma afstöðu sinni á framfæri verður það birt í samráðsgátt stjórnvalda síðar í dag. Opið verður fyrir athugasemdir til mánudags, en vegna mikilvægis þess að hraða meðferð málsins er ekki svigrúm til að veita rýmri tíma.

Í framhaldinu verður unnið úr athugasemdum og mun fjármála- og efnahagsráðherra leggja frumvarpið fram á Alþingi í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka